Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   lau 23. nóvember 2024 20:48
Brynjar Ingi Erluson
Guardiola: Aldrei lent í öðru eins á átta árum mínum hér
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola, stjóri Manchester City, var hálf orðlaust þegar hann ræddi við fjölmiðla eftir 4-0 tap liðsins gegn Tottenham á Etihad-leikvanginum í dag.

Það er allt í kleinu hjá Englandsmeisturunum. Liðið var að tapa fimmta leiknum í röð og virðist sjálfstraustið verulega skaddað eftir þessa taphrinu.

„Við erum ótrúlega viðkvæmir varnarlega. Eins og venjulega byrjuðum við vel en gátum ekki skorað. Eftir það fáum við á okkur mark og svo annað mark sem er tilfinningalega erfitt fyrir okkur á þessum tímapunkti.“

„Ég hef aldrei upplifað annað eins á átta árum mínum hér. Við þurfum að fara í gegnum þetta og brjóta þetta mynstur með því að vinna næstu leiki, sérstaklega næsta leik. Núna sjáum við hlutina á einn hátt, en kannski munum við sjá þá öðruvísi á næstu vikum,“
sagði Guardiola.

Hann játaði því þegar hann var spurður hvort að leikmenn hans væru í erfiðleikum með að glíma við ástandið.

„Auðvitað. Við erum ánægðir þegar við vinnum og áhyggjufullir þegar við gerum það ekki. Þetta er eðlilegt. Það væri vandamál ef þeir eða ég værum ekki áhyggjufullir.“

„Við erum ekki vanir því að vera í þessari stöðu en svona er lífið. Stundum gerist þetta og við þurfum að taka því. Það er eins og það er og núna þurfum við að mæta þessu.“


Guardiola vildi ekki kenna leikskipulaginu um heldur hvernig liðið bregst við. Hann segir mörg töp í röð hafa áhrif á hvernig liðið kemur til baka í leikjum.

„Ég myndi ekki segja að þetta sé spurning um taktík þegar þú tapar svona leikjum. Það eru smáatriði þarna en í þessari stöðu snýst þetta um hvernig þú bregst við. Hlutirnir eru líka öðruvísi þegar þú tapar þremur deildarleikjum í röð,“ sagði Guardiola.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner