Sædís Rún Heiðarsdóttir er tvöfaldur meistari í Noregi eftir sigur Valerenga í bikarúrslitum í dag.
Sædís hefur verið í lykilhlutverki hjá liðinu en Valerenga varð norskur meistari en liðið endaði með 15 stiga forystu á toppi deildarinnar.
Liðið mætti Rosenborg í bikarúrslitum í dag þar sem Valerenga vann 1-0. Sædís spilaði allan leikinn en Selma Sól Magnúsdóttir var tekin af velli í liði Rosenborg á 69. mínútu.
Dagný Brynjarsdóttir lék allan leikinn þegar West Ham vann London City Lionesses í enska deildabikarnum. Hún lagði upp eitt af mörkum liðsins í 4-1 sigri.
María Þórisdóttir var ekki í leikmannahópi Brighton þegar liðið tapaði í vítaspyrnukeppni gegn Leiceister. Það er riðlakeppni í deildabikarnum en Brighton er á toppi síns riðils eftir tvær umferðir. Sama má segja um West Ham.
Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í byrjunarliði Bayern þegar liðið vann Freiburg 2-1 í 16 liða úrslitum þýska bikarsins.