Man Utd vill Ait-Nouri og hefur líka áhuga á Nkunku - Fulham og Leicester vilja fá Ferguson lánaðan - Dyche með fullan stuðning
banner
   þri 26. nóvember 2024 11:00
Elvar Geir Magnússon
Ummæli Salah sýna að eitthvað er í ólagi - „Hann vill vera áfram“
Salah reif sig úr að ofan og sýndi að hann er í algjöru toppstandi.
Salah reif sig úr að ofan og sýndi að hann er í algjöru toppstandi.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA
John Aldridge, fyrrum sóknarmaður Liverpool, segir að stuðningsmenn liðsins vilji fá að vita hver staðan sé á samningamálum Mohamed Salah eftir að egypski sóknarmaðurinn greindi frá því að hann hefði ekki fengið neitt samningstilboð á borðið.

„Þetta er pólitískt. Það er þekkt hjá Liverpool að halda svona málum leyndum en ég tel að stuðningsmenn krefjist þess að fá að vita hver staðan er. Tölurnar tala sínu máli hjá Salah, þær eru magnaðar og ótrúlegar," segir Aldridge.

Búinn að stilla sér upp í búðarglugganum
Salah er ekki vanur því að veita viðtöl eftir leiki en hann stoppaði fyrir framan blaðamenn eftir 3-2 sigurinn gegn Southampton á sunnudag. Hann sagðist vera vonsvikinn yfir því að Liverpool hafi ekki boðið sér nýjan samning og segir það líklegra að hann fari annað eftir tímabilið en verði áfram.

„Mér fannst það furðulegt að hann stoppaði á viðstalssvæðinu. Það var út úr karakter að setja pressuna á félagið. Nú er hann búinn að stilla sér upp í búðarglugganum. Hann er á toppnum, skorar og mun halda því áfram. Kannski færir hann Liverpool titilinn," segir sparkspekingurinn Michael Brown í þættinum Monday Night Club á BBC.

„Ég held að félagið sé ekki að drífa sig. Það er meðvitað um stöðuna og vilja halda honum en geta ekki bara látið hann fá fáránlega peningaupphæð. Það mun ekki virka."

Í sama þætti sagði Chris Sutton, fyrrum sóknarmaður Blackburn að það væri greinilega eitthvað í ólagi.

„Að Salah stígi fram og segi frá þessu sýnir að það er eitthvað sem er ekki í lagi og það geta ekki verið góðar fréttir fyrir Liverpool og stuðningsmenn Liverpool, á tímabili þar sem allt hefur gengið á óskum. Það er núna þessi undiralda og hann er að setja pressu á félagið, segir Sutton.

Salah að sýna að hann vilji vera áfram
Hinn afskaplega virti blaðamaður Rory Smith hjá The Athletic telur að Salah hafi verið að senda stuðningsmönnum Liverpool þau skilaboð að hann vilji vera áfram.

„Mér finnst þetta vera skilaboð til Liverpool stuðningsmanna að hann vilji vera áfram og ef hann endar á því að fara sé það ekki vegna áhugaleysis hans," segir Smith.

„Félagið mun íhuga hvort það sé þess virði að borga 300 þúsund pund á viku eða svo til leikmanns sem á kannski bara eitt eða tvö ár eftir á þessum styrkleika. Kannski á hann sex ár eftir á þessum styrkleika en það yrði þá áhætta sem Liverpol þyrfti að taka."
Athugasemdir
banner