Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayerrn
   sun 27. mars 2022 22:05
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Gekk upp fyrir Matta og vonandi líka fyrir mig"
Jónatan í leik með FH síðasta sumar.
Jónatan í leik með FH síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Matthías var í Noregi á árunum 2012-2020.
Matthías var í Noregi á árunum 2012-2020.
Mynd: Getty Images
Hörður Ingi
Hörður Ingi
Mynd: Sogndal
Jónatan Ingi Jónsson var til viðtals á laugardag hér á Fótbolti.net. Hann var kynntur sem nýr leikmaður Sogndal á föstudag og verða þeir Hörður Ingi Gunnarsson og Valdimar Þórs Ingimundarson liðsfélagar Jónatans.

Sjá einnig:
„Mjög vont í hjartað en stundum þarf maður að hugsa um sjálfan sig"

Hann sagði í samtali við Fótbolta.net að hann hefði átt samtöl við verðandi liðsfélaga sína áður en hann ákvað að semja við norska félagið og þá átti hann sömuleiðis samtal við Matthías Vilhjálmsson, fyrirliða FH, og Tore Andre Flo, þjálfara Sogndal.

„Þeir Hörður og Valdimar sögðu mér frá því hvernig félagið er, æfingarnar og svoleiðis hluti. Eftir þau samtöl var ég viss um að þetta væri skref upp á við frá FH og skref sem gæti hjálpað mér áfram með minn feril," sagði Jónatan.

„Það er metnaður að fara upp um deild, flottar aðstæður og liðið hefur burði til þess að fara upp. Það segir mér töluvert að Valdimar var með tilboð bæði frá Íslandi og B-deildinni í Svíþjóð en ákvað frekar að fara hingað frá Strömsgodset, segir mér að þetta er næsta stig fyrir ofan deildina heima."

Hafði það áhrif á þig í vetur þegar Hörður Ingi fór út, ýtti það á þig að vilja enn frekar fara út?

„Nei, ég myndi ekki segja það neitt frekar. Ég var ánægður fyrir hans hönd að hann fékk þetta tækifæri. Svo þegar við ræddum saman um þennan möguleika þá leist mér vel á að fara til Sogndal. Hann og Valdimar eru þekktir innan liðsins sem Íslendingarnir því þeir eru mikið saman. Það væri held ég samt líka þannig ef það væru tveir Norðmenn hjá sama íslenska liðinu."

„Við fjölskyldan munum búa í grenndinni við þá sem verður bara flott. Fínt að hafa Íslendinga með sér."


Matti vann sjö titla eftir að hafa byrjað í B-deild
Hvernig var samtalið við Matta Vill?

„Hann tók skrefið á sínum tíma og spilaði í næst efstu deild í Noregi [fór til Start árið 2012 frá FH] áður en hann var svo fenginn til Rosenborg og fór að lyfta titlum."

„Þetta er svipað skref og hann tók og við höfum rætt um þetta nokkrum sinnum. Þetta gekk upp fyrir hann og vonandi mun það líka ganga fyrir mig, en það er undir mér komið. Honum fannst leiðinlegt að ég væri að fara en sagðist að sjálfsögðu skilja það vel og óskaði mér alls hins besta og gaf mér mjög góð ráð. Hann hefur hjálpað mér mikið hjá FH og vonandi getur hann haldið áfram að gera það!”


Matthías varð fjórum sinnum norskur meistari og þrisvar sinnum bikarmeistari á árum sínum í Noregi.

Tore Andre Flo er fyrrum leikmaður Chelsea á Englandi. Jónatan sagðist muna eftir nafninu en hefði þó ekki séð Flo spila í bláa búningnum.

„Hann er að koma inn í þjálfun núna, er í fyrsta sinn aðalþjálfari. Ég kannaðist við nafnið en ég sá hann ekki spila á sínum tíma. Mér líst mjög vel á hann sem þjálfara," sagði Jónatan.

Það er líka mjög eðlilegt að Jónatan hafi ekki séð Flo því hann lék með Chelsea á árunum 1997-2000, fór svo til Rangers og næst til Sunderland. Áður en ferlinum lauk árið 2012 átti hann eftir að spila með Siena, Vålerenga, Leeds, MK Dons og svo Sogndal þar sem hann er uppalinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner