Arsenal vill Cunha og Gyökeres - Reijnders á óskalista City - Eriksen gæti snúið aftur til Ajax
   fös 28. mars 2025 13:00
Elvar Geir Magnússon
Nauðgunardómur Dani Alves ógiltur
Dani Alves fyrir dómi.
Dani Alves fyrir dómi.
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Spænskur dómstóll hefur fellt nauðgunardóm úr gildi sem Dani Alves, fyrrum leikmaður Barcelona og Brasilíu, hlaut á síðasta ári.

Dómstóllinn segir ósamræmi og mótsagnir hafa verið í dómnum en Alves, sem er 41 árs, hafði fengið fjögurra og hálfs árs fangelsisdóm.

Alves var fundinn sekur um að hafa naugað konu á skemmtistað í Barcelona árið 2022. Hann var látinn laus gegn tryggingu í mars 2024 á meðan æðri dómstóll tók áfrýjun hans fyrir.

Alves var einn besti bakvörður heims og lék 126 landsleiki fyrir Brasilíu. Hann vann titla með Brasilíu, Sevilla, Barcelona, Juventus og Paris St-Germain

Áfrýjunardómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að í upphaflega dómsmálinu væru ýmsar gloppur, ónákvæmni og ósamræmi hvað varðaði sönnunarmat. Niðurstaða dómstólsins var sú að meint fórnarlamb hafi sjálfviljugt farið inn á baðherbergi með Alves.

Öllum takmörkunum á Alves hefur verið aflétt, þar á meðal ferðabanni og nálgunarbanni. Hinsvegar er enn hægt að áfrýja niðurstöðunni til Hæstaréttar.

„Alves er mjög ánægður. Hann er saklaus, það hefur verið sýnt fram á það. Réttlætið hefur talað,“ sagði lögfræðingur hans, Ines Guardiola, við RAC1 útvarpsstöðina. Alves var að spila með Pumas UNAM þegar hann var handtekinn, sem leiddi til þess að mexíkóska félagið rifti samningi hans.
Athugasemdir
banner
banner
banner