„Þetta var rússíbani og mér líður hrikalega vel að hafa unnið þennan leik," sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, aðstoðarþjálfari Vals, eftir mjög svo dramatískan 3-2 heimasigur gegn Stjörnunni í Bestu deildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Valur 3 - 2 Stjarnan
„Við erum ekki nógu góðir í seinni hálfleik sem eru vonbrigði en þetta er gríðarlega sætur sigur og það er frábær karakter í liðinu að sækja sigurinn."
Valsmenn voru mjög góðir í fyrri hálfleik og leiddu 2-0 að honum loknum. Stjarnan kom til baka á síðustu 15 mínútunum í seinni hálfleiknum. Leið heimamönnum kannski of þægilega í seinni hálfleiknum?
„Ég veit það ekki. Við vorum með ágætis stjórn á þessu. Þeir héldu rosalega vel í boltann. Það eru frábærir fótboltamenn í þessu Stjörnuliði. Svo komast þeir á bragðið. Við vorum klaufar í seinna markinu. Við erum þrír á Ísaki en hann og hann nær samt skotinu í varnarmann og inn. Það fór um mann og menn voru svekktir, en við komum til baka og ég er ánægður með það."
Undirritaður hefur tekið eftir því að Siggi er meira út í boðvangnum heldur en Arnar Grétarsson, sem er aðalþjálfari liðsins. „Hann er aðeins stóískari en ég. Ég verð að standa og vera líflegur."
Hann segir að það sé ánægja á Hlíðarenda með byrjunina á tímabilinu en Valur er með níu stig eftir fjóra leiki. Umræðan hefur svolítið verið þannig að Valur sé ekki að spila skemmtilegan fótbolta og frammistaðan hafi ekki verið sérstök. Hvað finnst Sigga um það?
„Mér finnst við hafa verið kraftmiklir og við erum í góðu standi. Við erum með níu stig og við erum sáttir þó að einhverjir segi að við séum ekki nógu góðir. Okkur finnst við vera að spila góðan fótbolta. Við höfum tölfræði til að bakka það upp sem enginn nennir að hlusta á. Við dæmum okkur sjálfa og við erum ánægðir."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan en þar ræðir Siggi meðal annars stöðuna á Hólmari Erni Eyjólfssyni sem hefur verið að glíma við meiðsli.
Athugasemdir