Fótbolti.net óskar lesendum sínum gleðilegs nýs árs og farsældar á komandi ári. Um leið þökkum við samveruna á árinu sem var að líða.
Fótboltaárið 2024 var stórskemmtilegt í alla staði. Breiðablik varð Íslandsmeistari í karla- og kvennaflokki á meðan KA varð bikarmeistari í karlaflokki í fyrsta sinn. Valur vann bikarinn í kvennaflokki í fimmtánda sinn.
Afturelding komst upp í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins er það vann umspil Lengjudeildarinnar og þá fór kvennalið Fram upp í efstu deild í fyrsta sinn í 37 ár.
Manchester City varð Englandsmeistari í sjötta sinn undir stjórn Pep Guardiola og þá varð Real Madrid Evrópumeistari í fimmtánda sinn, en ekkert lið hefur unnið keppnina oftar. Madrídingar unnu einnig spænsku deildina.
Inter varð Ítalíumeistari og þá vann Bayer Leverkusen þýsku deildina án þess að tapa leik.
Framundan er öflugt fótboltaár bæði heima og erlendis. Íslenska kvennalandsliðið spilar á fimmta Evrópumóti sínu sem fer fram í Sviss og þá fer undankeppni HM á fullt með karlalandsliðinu.
Félagaskiptaglugginn opnaði um miðnætti og munum við auðvitað færa ykkur allt það helsta af markaðnum.
Markmið Fótbolta.net er það sama á önnur ár, að gera vefinn enn betri. Þið getið því fylgst spennt með á árinu 2025!
Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur og takk fyrir þau gömlu!
Athugasemdir