Michail Antonio, sóknarmaður West Ham United, hefur verið útskrifaður af spítala aðeins nokkrum vikum eftir að hafa fótbrotnað í alvarlegu bílslysi rétt fyrir utan Lundúnir.
Antonio, sem er 34 ára gamall, var fluttur með sjúkraflugi á spítala eftir slysið en hann var fastur í bifreið sinni í dágóðan tíma áður en slökkviliðsmenn náðu að koma honum til bjargar.
Framherjinn þurfti að fara í aðgerð á löppunum og kom í kjölfarið fram að hann yrði ekki meira með West Ham á árinu og er enn of snemmt að segja til um hvort ferlinum sé lokið.
Næsta ár verður Antonio erfitt en fyrsta skrefið í átt að bata kom í dag er hann var útskrifaður af spítalanum og tekur nú við langt og strangt endurhæfingarferli.
West Ham hefur safnað 60 þúsund pundum fyrir NHS (heilbrigðisstofnun Englands) með því að selja notaðar treyjur á uppboði.
Antonio er markahæsti leikmaður West Ham í ensku úrvalsdeildinni frá því deildin var sett á laggirnar árið 1992 með 68 mörk.
Athugasemdir