Portúgalski ofurumboðsmaðurinn Jorge Mendes vildi ekki útiloka þann möguleika að Ansu Fati gæti yfirgefið Barcelona á láni í þessum mánuði er hann ræddi við Mundo Deportivo á dögunum.
Fati er 22 ára gamall sóknarmaður sem var ætlað stórt hlutverk hjá Barcelona.
Meiðsli á mikilvægum tímapunkti ferilsins höfðu veruleg áhrif og hefur hann ekki náð að jafna sig.
Hann hefur komið við sögu í sjö leikjum á tímabilinu en ekki náð að halda sér í formi og eru sögusagnir um það að Barcelona sé reiðubúið að leyfa honum að fara í þessum glugga.
„Fer Ansu Fati á láni? Þetta er spurning fyrir Barcelona, en hann hefur klárlega gæðin til að spila fyrir Börsunga. Hann þarf að vinna í sjálfstraustinu og leysa meiðslavandræðin. Barcelona mun þurfa á honum að halda þegar hann er orðinn 100% því hann er einstakur leikmaður,“ sagði Mendes.
Fati fékk 'tíuna' frá Lionel Messi er Argentínumaðurinn fór til Paris Saint-Germain en því númeri fylgir mikil ábyrgð. Miðlar hafa skrifað um að hinn 17 ára gamli Lamine Yamal gæti fengið treyjunúmerið á næsta tímabili.
Athugasemdir