Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   fös 31. maí 2024 10:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Salzburg
Þessir leikmenn mega eiga vondan dag
Austurríki með leikmenn í stærstu liðunum
Icelandair
Sarah Zadrazil reynir hér að ná boltanum af Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Sarah Zadrazil reynir hér að ná boltanum af Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur.
Mynd: Getty Images
Manuela Zinsberger er einn besti markvörður í heimi.
Manuela Zinsberger er einn besti markvörður í heimi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sarah Puntigam, fyrirliði Austurríkis.
Sarah Puntigam, fyrirliði Austurríkis.
Mynd: EPA
Austurríki fór illa með Ísland á EM 2017.
Austurríki fór illa með Ísland á EM 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu Íslands í Austurríki í gær.
Frá æfingu Íslands í Austurríki í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við vitum að þetta er hörkuandstæðingur; lið sem er gott og þetta eru leikmenn sem spila á háu stigi. Þær eru í góðum félagsliðum," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, um lið Austurríkis fyrir æfingu í Salzburg í gær.

Ísland spilar í dag mikilvægan leik við Austurríki í bænum Ried en liðin mætast svo aftur á Laugardalsvelli á þriðjudag. Með góðum úrslitum í þessum leikjum kemur Ísland sér í kjörstöðu upp á það að komast á EM 2025.

„Þetta verður erfiður leikur. Við unnum þær síðast í hörkuleik fyrir ári síðan og auðvitað vonast maður til að vinna þær aftur. Ég veit ekkert með einhverjar líkur. Þetta snýst bara um að við komum klárar inn í þetta og spilum okkar besta leik. Ef það gerist, þá eigum við að fá góð úrslit út úr þessu," sagði Þorsteinn jafnframt.

Fyrirfram er hægt að horfa í það að þessi tvö lið séu frekar jöfn að styrkleika. Ísland er í 15. sæti á heimslistanum á meðan Austurríki situr tveimur sætum neðar.

Austurríki er með hörkulið og margar þeirra hafa spilað lengi saman. Þær hafa farið á síðustu tvö Evrópumót og náð þar betri árangri en Ísland. Liðin voru saman í riðli á EM 2017 en þar fór Austurríki í undanúrslit eftir að lagt Ísland 3-0 í riðlakeppninni. Á EM fyrir tveimur árum fór þær í átta-liða úrslit en töpuðu þar fyrir Þýskalandi. Ísland fór ekki upp úr riðli sínum á EM 2017 eða á EM 2022.

Stærstu stjörnurnar
Í liði Austurríks eru margir öflugir leikmenn en þær spila flestar í þýsku úrvalsdeildinni. Það er mikil reynsla í liði þeirra og eru alls sex leikmenn í liðinu sem hafa spilað yfir 100 landsleiki og þá hefur markvörðurinn Manuela Zinsberger spilað 98 landsleiki. Í liði Íslands er aðeins einn leikmaður sem hefur spilað yfir 100 landsleiki og kemst nálægt því en það er fyrirliðinn Glódís Perla Viggósdótitir.

En hverjar eru stærstu stjörnurnar í liði Austurríkis. Hér eru þrír leikmenn sem mega alveg eiga vondan dag á þessum annars ágæta föstudegi:

Sarah Zadrazil (Bayern München)
Miðjumaður sem er liðsfélagi Glódísar Perlu, Cecilíu Rán Rúnarsdóttur og Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur hjá Bayern München. Zadrazil er með gríðarlega góða tækni og frábært auga fyrir spili. Hún er í raun með allan pakkann sem miðjumaður. Þegar hún er upp á sitt besta þá er hún í hópi með bestu miðjumönnum Evrópu, án nokkurs vafa.

Sarah Puntigam (Houston Dash)
Er fyrirliði og hjartað í austurríska landsliðinu. Hún hefur spilað 144 landsleiki og gengið í gegnum margt með liðinu. Hún er fjölhæfur varnar- og miðjumaður, og er alveg gríðarlegur leiðtogi. Spilar með Houston Dash í Bandaríkjunum í afar sterkri deild.

Manuela Zinsberger (Arsenal)
Íslenska landsliðið þarf að finna leið fram hjá markverði einu besta liði Englands til að eiga möguleika á að vinna leikinn í dag. „Manu er einn besti markvörður í heimi," sagði Jonas Eidevall, þjálfari Arsenal, um Zinsberger fyrr á þessu ári. Þú kemst ekkert í Arsenal með heppni; hún er frábær markvörður.

Það er klárlega hægt að nefna fleiri leikmenn hérna; Verena Hanshaw og Virginia Kirchberger eru varnarmenn sem leika báðar með Frankfurt, Laura Wienroither er varnarmaður Arsenal, Laura Feiersinger er miðjumaður hjá Ítalíumeisturum Roma og Nicole Billa hefur á síðustu árum verið öflugasti framherji þýsku úrvalsdeildarinnar en hún leikur með Hoffenheim.

Fyrri viðureignir
Þetta austurríska liðið verður erfitt viðureignar en möguleikarnir eru klárlega staðar ef við hittum á okkar bestu dag. Samkvæmt vefsíðu KSÍ þá hafa Ísland og Austurríki aðeins mæst tvisvar í A-landsliðum kvenna.

Fyrri leikurinn var 2017 og hann var alveg hörmulega lélegur af hálfu íslenska liðsins. Það var síðasti leikurinn í riðli á EM og endaði hann 3-0 fyrir Austurríki. Glódís Perla og Sandra María Jessen voru þær einu sem spiluðu þann leik fyrir Ísland sem eru í hópnum í dag.

Svo var það vináttulandsleikur í fyrra sem Ísland vann 1-0. Mark Íslands í þeim leik gerði Hafrún Rakel Halldórsdóttir í lokin, en hún var kölluð inn í hópinn í gær.

Ísland spilar við Austurríki í undankeppni í dag, en leikurinn hefst klukkan 16:00 að íslenskum tíma og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net. Hann verður einnig sýndur í beinni útsendingu á RÚV.
Steini: Urðum að taka ákvörðun eftir æfingu í gær um að hún væri ekki klár
Athugasemdir
banner
banner
banner