Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   mán 04. desember 2017 11:04
Magnús Már Einarsson
Fá íslenskir stuðningsmenn „bara" 3200 miða á hvern leik á HM?
KSÍ reynir að útvega fleiri miða
Icelandair
Íslenskir stuðningsmenn ætla að fjölmenna til Rússlands.
Íslenskir stuðningsmenn ætla að fjölmenna til Rússlands.
Mynd: Sunnlenska.is - Guðmundur Karl
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eins og staðan er í dag fara 8% af seldum miðum á leiki Íslands á HM í sölu til íslenskra stuðningsmanna. Það þýðir rúmlega 3000 miðar á hvern leik í keppninni.

Hægt verður að sækja um miða frá og með á morgun og til 31. janúar. Um er að ræða miðhappdrætti en ekki fyrstur kemur fyrstur fær. Miðasalan fer fram á heimasíðu FIFA

Ísland spilar gegn Argentínu í Moskvu, Nígeríu í Volograd og gegn Króatíu í Rostov. Allir leikvangarnir taka rúmlega 45 þúsund í sæti.

8% miðanna fara í sölu til íslenskra stuðningsmanna en þar er einungis um að ræða seld sæti. Miðar fyrir fjölmiðla og styrktaraðila FIFA eru til dæmis teknir frá áður en sala hefst.

„Við höfum gefið okkur það að það fari 40 þúsund miðar í sölu og þá erum við að tala um 8% af því," sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, við Fótbolta.net í dag en reikna má þá með að í kringum 3200 miðar verði í boði fyrir íslenska stuðningsmenn á hvern leik.

Mikil eftirvænting er hjá íslenskum stuðningsmönnum og KSÍ ætlar að reyna að fá fleiri miða á leikina.

„Við erum í samráði við fleiri þjóðir eins og Portúgal, Svíþjóð, Danmörk og Sviss að óska eftir því að þessi prósenta verði hækkuð. FIFA er ekkert þekkt fyrir sveigjanleika en það eru stórar þjóðir að pressa á FIFA með þetta. Við höfum hins vegar engar upplýsingar hvort við fáum stærri úthlutun og þá hvenær við fáum svör við því."

Nokkrir Íslendingar búnir að kaupa miða
Fyrr á þessu ári fóru 700 þúsund miðar í sölu. Vitað er að einhverjir Íslendingar nældu sér í miða þar og eru þar með komnir með miða á leiki Íslands næsta sumar.

Ef íslenskir stuðningsmenn verða ekki heppnir í miðahappdrættinu sem er framundan þá er ennþá smá smuga á að ná í miða á næsta ári.

„Ef það verða miðar eftir á leikina þá fer annað ferli í gang 15. febrúar-12. mars. Við þekkjum ekki hvort þeir miðar verði á sama svæði og miðarnir fyrir íslensku stuðningsmennina. Við höfum ekki fengið svör með það," sagði Klara.

Leikir Íslands:
Laugardagur 16. júní Argentína - Ísland (Moskva)
Föstudagur 22. júní Nígería - Ísland (Volgograd)
Þriðjudagur 26. júní Ísland - Króatía (Rostov)

Sjá einnig:
Þetta eru vellirnir sem Ísland spilar á á HM
Athugasemdir
banner
banner
banner