Nú styttist í verkefni íslenska landsliðsins í mars þegar liðið mætir Mexíkó og Perú í vináttulandsleikjum sem fara fram í Bandaríkjunum. Þetta eru síðustu æfingaleikir íslenska landsliðsins áður en leikmannahópurinn fyrir HM í sumar verður valinn og búast má við öllum bestu leikmönnum Íslands í verkefninu.
Það er miðasölufyrirtækið Ticketmaster sem selur miða á báða leikina og miðaverðið hefur komið á óvart.
Verðið á leikinn gegn Perú sem fer fram í New York 27. mars næstkomandi er mjög hátt en ódýrasti miðinn sem hægt er að fá á leikinn kostar 171 dollara eða um 18 þúsund krónur. Þar er um að ræða sæti fyrir aftan annað markið en ef fólk vill miða við miðlínu vallarins þá kostar hann 350 dollara, um 36 þúsund krónur.
Leikið er á Red Bull Arena í New Jersey, velli sem tekur 25 þúsund áhorfendur í sæti. New York Red Bulls leikur heimaleiki sína á vellinum sem er sérstaklega byggður með fótboltaleiki í huga.
Sé þetta svo borið saman við leikinn gegn Mexíkó í San Fransco fjórum dögum áður þá sést að þar kostar ódýrasti miðinn 40 dollara eða rétt rúmar 4000 krónur. Þar er hægt að fá VIP miða á 300 dollara, rétt rúmlega 30 þúsund krónur.
Sá leikur fer fram á Levi's Stadium sem er heimavöllur San Fransisco 49ers í ameríska fótboltanum. Völlurinn er beinlínis geggjaður fyrir áhorfendur og tekur 68.500 í sæti.
Ísland - Mexíkó
Levi's Stadium í San Fransisco
23. mars
Ódýrasti miðinn: 4 þúsund krónur
Miðasala
Ísland - Perú
Red Bull Arena í New Jersey
27. mars
Ódýrasti miðinn: 18 þúsund krónur
Miðasala
Athugasemdir