Þóroddur Hjaltalín
Þóroddur dæmdi bikarúrslitaleik Breiðabliks og Stjörnunnar frábærlega. Hann hefur einnig verið besti dómarinn í Pepsi-deildinni.
„Ég er heilt yfir ákaflega ánægður með sumarið og mína frammistöðu," sagði Þórddur Hjaltalín við Fótbolta.net en hann er dómari ársins í Pepsi-deild karla.
„Þetta er búið að vera alveg þrælskemmtilegt sumar og hef ég notið þess virkilega að dæma og það hefur klárlega áhrif á gengið hjá mér á þessu tímabili sem er sennilega mitt besta ár. Ég hef í flestum leikjum starfað með sömu aðstoðardómara með mér þá Frosta og Edda. Þeir eiga sannanlega sinn þátt í þessu."
„Þetta er búið að vera alveg þrælskemmtilegt sumar og hef ég notið þess virkilega að dæma og það hefur klárlega áhrif á gengið hjá mér á þessu tímabili sem er sennilega mitt besta ár. Ég hef í flestum leikjum starfað með sömu aðstoðardómara með mér þá Frosta og Edda. Þeir eiga sannanlega sinn þátt í þessu."
Þóroddur hefur verið lengi í dómgæslunni og hann telur að dómgæslan í deildinni í sumar hafi verið fín.
„Mér finnst dómgæslan heilt yfir hafa verið góð í sumar og margir dómarar staðið sig virkilega vel. Auðvitað koma alltaf upp atvik sem hefði verið hægt að leysa betur. Þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf."
Þóroddur ætlaði að hætta að dæma í fyrra en ákvað að taka eitt tímabil til viðbótar. Kveðjuleikur hans var í gær þegar hann dæmdi leik Víkings og KR.
„Nú er ég endanlega hættur. Þetta var mitt síðasta tímabil. Nota tækifærið og þakka öllum leikmönnum, þjálfurum, forráðamönnum og öðrum viðloðandi íslenskum fótbolta kærlega fyrir frábært samstarf í gegnum árin."
Þóroddur bætist í hóp með mörgum dómurum sem hafa hætt undanfarin ár.
„Ég hef ákveðnar áhyggjur af endurnýjun í dómarahópnum. Við höfum misst marga góða menn úr okkar röðum á stuttum tíma sem ég tel ekki gott. Auðvitað koma alltaf ferskir menn inn en það þarf að vera meira jafnvægi í þessu. Reynslan skiptir svo gríðarlega miklu máli í knattspyrnudómgæslu," sagði Þóroddur Hjaltalín, besti dómarinn í Pepsi-deild karla 2018 að mati Fótbolta.net.
Sjá einnig:
Úrvalslið Pepsi-deildarinnar 2018
Athugasemdir