fös 04. nóvember 2022 17:30
Elvar Geir Magnússon
Conte: Það var gjörsamlega hræðilegt að vera í stúkunni
Antonio Conte, stjóri Tottenham.
Antonio Conte, stjóri Tottenham.
Mynd: Getty Images
„Það var hræðilegt, gjörsamlega hræðilegt," segir Antonio Conte, stjóri Tottenham, þegar hann er spurður út í það hvernig það hafi verið að sitja í stúkunni í Meistaradeildarleiknum gegn Marseille í vikunni.

„Í hreinskilni var þetta mjög skrítið því ég var staðsettur í miðjum skaranum, í kringum stuðningsmennina. Kannski ætti UEFA að finna betri aðstöðu, ekki því ég vil lenda í þessari stöðu aftur en þetta var mér allavega mjög erfitt."

Conte tók út bann og var við hlið Grétars Rafns Steinssonar í stúkunni í þessum gríðarlega mikilvæga leik. Tottenham vann með flautumarki og komst áfram í 16-liða úrslit.

„Maður er fastur í stúkunni og getur ekki hjálpað liðinu með neinum upplýsingum. Það var sérstaklega erfitt að vera í þessari stöðu og horfa upp á fyrri hálfleikinn þar sem við vorum gríðarlega passífir."

„Að sjá liðið þitt í vandræðum var sársaukafullt því fyrir þjálfarann er liðið eins og sonur þinn eða dóttir. Ég er með tilfinningar og það var mjög erfitt að horfa á liðið í vandræðum og geta ekki hjálpað."

„Ég vil hrósa starfsliðinu mínu því liðið vann afskaplega gott starf í að laga það sem gekk illa í fyrri hálfleiknum."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner