Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 04. nóvember 2022 16:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Emil Stefáns segir frá erfiðum veikindum - Er í leit að nýra
Emil í leik með FH fyrir mörgum árum. Hann ólst upp hjá félaginu.
Emil í leik með FH fyrir mörgum árum. Hann ólst upp hjá félaginu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Emil Stefánsson, fyrrum leikmaður FH, Fjarðabyggðar, Þróttar Vogum og ÍH, greinir frá því í opinni færslu á Facebook að hann sé að glíma við erfiðan sjúkdóm.

Emil, sem lék síðast fótbolta með ÍH sumarið 2020, er með langvinnan nýrnasjúkdóm og er í leit að nýju nýra.

„Í byrjun janúar skrapp ég til heimilislæknis þar sem ég taldi mig vera kominn með ofnæmi, aðallega út af miklum kláða sem hafði verið að stríða mér lengi, en einnig höfðu önnur veikindaeinkenni verið að stríða mér. Um það bil tveimur vikum seinna er það svo orðið ljóst að ég sé með langvinnan nýrnasjúkdóm, sem leiðir til svokallaðrar lokastigsnýrnabilunar, en hef þá að öllum líkindum haft þennan sjúkdóm innbyrðis í mörg ár án þess að hann gerði vart við sig," skrifar Emil.

„Árið hefur verið langt og strembið hvað sjúkdóminn varðar, en fyrir um 2-3 mánuðum síðar hætti nýrnastarfsemin í líkamanum að fullu og fylgdu því ansi mikil veikindi. Ég komst loksins í meðferð um mitt sumar, eftir að hafa eytt bróðurpartinum af vorinu meira og minna inn á spítala eða þá rúmliggjandi heima. Meðferðin sem ég er í kallast kviðskilun og kem ég til með að vera í henni þangað til ég fæ nýtt nýra."

„Eins og staðan er núna í leit eftir nýra og er á biðlista erlendis og á Íslandi. Ég er við sæmilega heilsu á meðan þar sem meðferðin, mikil lyfjagjöf og önnur dagleg læknishjálp frá ansi miklum sérfræðingum á Landspítalanum, hefur reynst ómetanleg síðastliðna mánuði," skrifar Emil og minnir hann fólk á að hugsa vel um eigin heilsu.

Að lokum skrifar hann: „Ef einhver er í hugleiðingum með að gefa mikilvægt líffæri, líkt og nýra, þá er ég að minnsta kosti í leit eftir slíku, en hægt er að hafa samband við mig eða Landspítalann fyrir frekari spurningar um það ferli."

Hér fyrir neðan má sjá færsluna í heild sinni en þar skrifar hann einnig um býsna skemmtilega hluti sem hafa gerst á árinu hjá honum.


Athugasemdir
banner
banner
banner