Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   lau 05. nóvember 2022 16:00
Elvar Geir Magnússon
Arnar Viðars: Þeir æfa sitt upplegg fyrir HM
Frá æfingu Íslands í Abú Dabí.
Frá æfingu Íslands í Abú Dabí.
Mynd: KSÍ
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: EPA
Ísland mætir Sádi-Arabíu í vináttuleik á morgun. Leikurinn fer fram í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hefst kl. 12:00 að íslenskum tíma. Íslenski hópurinn, sem er að stórum hluta skipaður leikmönnum úr Bestu deildinni, hefur æft síðustu daga í Abú Dabí við góðar aðstæður.

Ísland og Sádi-Arabía hafa fimm sinnum áður mæst, fyrst árið 1984 og síðast árið 2002. Íslenska liðið hefur unnið einu sinni, tvisvar hafa liðin skilið jöfn og tvisvar hafa Sádar unnið sigur.

„Sádarnir eru með sterkt lið, hafa verið með besta liðið á þessu svæði síðustu áratugina og hafa reglulega komist í lokakeppni HM. Þeir eru með mjög flinka leikmenn, flestir að spila í Sádi-Arabíu," segir Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari við miðla KSÍ.

Sádi-Arabía tekur þátt í HM í Katar sem hefst síðar í þessum mánuði. Liðið er með Argentínu, Mexíkó og Póllandi í riðli.

„Þeir eru að fara að æfa sitt upplegg fyrir HM, þeir vilja vera agaðir og spila lokaða leiki, eins og þeir gerðu gegn Bandaríkjunum fyrir stuttu síðan, svo spiluðu þeir á móti Vensúela, sem við þekkjum vel, þannig að þetta hafa verið lokaðir leikir og ekki mikið af færum."

Góður gluggi til að sýna sig
„Þessi leikur verður spennandi og verðugt verkefni fyrir okkar leikmenn og það eru einmitt þannig verkefni sem við erum að leitast eftir. Þetta er frábær möguleiki fyrir okkar leikmenn, sem eru margir að koma beint úr Bestu deildinni, að sýna sig og sanna á þessu leveli," segir Arnar.

„Margir af okkar leikmönnum ef ekki allir, sem eru ekki atvinnumenn nú þegar, hafa áhuga á því að komast í atvinnumennsku, og þessir leikir geta verið góður gluggi fyrir þá."

„Þetta er alvöru verkefni og þó þetta sé vináttuleikur, þá erum við staðráðnir í að spila góðan leik og ná í úrslit. Ef við náum að sýna góða liðsframmistöðu, þá er alltaf möguleiki á einstaklingsframmistöðum hjá einhverjum leikmönnum, sem leiða þá til einhvers stærra og betra."

Hér að neðan er innlit á æfingu Íslands:


Athugasemdir
banner
banner