Daníel Hafsteinsson, leikmaður KA í Bestu deildinni, átti gott tímabil með liðinu sem endaði í öðru sæti deildarinnar og fer því í Evrópukeppni á næstu leiktíð.
Daníel var valinn í landsliðshópinn sem mætir Sádí-Arabíu á morgun og síðan Suður-Kóreu þann 11.nóvember.
Ásamt Daníel voru þeir Ívar Örn Árnason og Þorri Mar Þórisson einnig valdir úr KA en Ívar og Þorri eru til vara ef einhver skyldi draga sig úr hópnum.
Daníel mætti í spjall hjá Fótbolta.net og þar var hann spurður út í landsliðsverkefni sem framundan er. Allt viðtalið við Daníel verður spilað í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem verður milli 12 og 14 á X977 í dag.
„Ég er mjög vel stemmdur. Það er spennandi að fá að taka þátt í þessu og bara smá verðlaun fyrir tímabilið. Ég er hrikalega spenntur fyrir þessu,” sagði Daníel.
Voru þessir landsleikir eitthvað sem Daníel var búinn að horfa til?
„Nei í hreinskilni sagt, ég vissi af þessum leik og var búinn að sjá það á netinu einhvern tímann fyrir löngu en ég reyndar vissi ekkert hvernig því yrði háttað. Ég var bara látinn vita en ég vissi eiginlega ekkert að því en auðvitað kannski haft það svona í huga þegar maður var búinn að frétta af þessum stærri hóp þarna, þá var maður kannski aðeins meira farinn að pæla í þessu.”
Hvernig var að heyra að nafnið þitt kæmi til greina í þetta verkefni?
„Geggjað, bara hrikalega ánægður með þetta og eins og ég segi, bara stoltur að fá að taka þátt í þessu,” sagði Daníel.
Voru hann og hinir KA mennirnir eitthvað meðvitaðir um hverjir yrðu valdnir fyrr en á föstudaginn þegar hópurinn var tilkynntur?
„Nei, eða ég tala bara fyrir sjálfan mig. Allavega ég vissi ekki neitt, Arnar var kannski ekki búinn að velja hópinn alveg, ég veit ekki hvernig því var háttað en ég fékk bara heyra þetta rétt áður en hópurinn var valinn. Ég veit ekki hvernig þetta var hjá hinum strákunum.”
Er fyrsti landsleikurinn að fara koma í þessu verkefni?
„Já, ég ætla að vona það. Það yrði mjög skemmtilegt."
Daníel var að lokum spurður að því hvernig honum fyndist það að vera fara til Sádí-Arabíu og Seúl.
„Ógeðslega gaman. Flest svona lönd sem ég hef farið til hafa verið með yngri landsliðum. Það hafa verið öðruvísi lönd, ekki bara Tenerife eða eitthvað. Spennandi að fá að taka þátt í þessu, maður sér kannski ekki mikið menninguna en bara að koma til þessara landa eru algjör forréttindi.”
Allt viðtalið við Daníel verður spilað í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem verður milli 12 og 14 á X977 í dag.