Raphinha og Camavinga til Manchester - Thuram til ensks toppliðs - Newcastle með plan ef Isak fer
   þri 11. október 2022 11:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Porto
„Ísland á sér stað í hjarta mínu, en ég vil samt að Portúgal vinni leikinn"
Icelandair
Ana Bral fagnar marki með Fram í sumar.
Ana Bral fagnar marki með Fram í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá æfingu Íslands í Portúgal í gær.
Frá æfingu Íslands í Portúgal í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Í sumar hjálpaði Ana Bral liði Fram að komast upp í Lengjudeildina. Hún skoraði alls fjögur mörk í 16 leikjum er Fram tókst að vinna 2. deild kvenna.

Ana, sem er fædd árið 1996, var að klára sitt annað tímabil á Íslandi en hún lék með Sindra á Höfn í Hornafirði í fyrra.

Ana er frá Portúgal en í kvöld spilar hennar þjóð gegn Íslandi í ótrúlega mikilvægum leik.

Leikurinn er hreinn úrslitaleikur þar sem sigurliðið kemur til með að vinna sér sæti á HM sem fram fer á næsta ári - eða þá inn í annað umspil sem fram fer í Nýja-Sjálandi í febrúar á næsta ári. Það eru ekki miklar líkur á því að Ísland fari í umspilið, þó það gæti gerst.

„Mér líður vel. Ísland er hærra skrifað fyrir leikinn en portúgalska liðið hefur verið að bæta sig mikið leik frá leik. Ég hef trú á því að Portúgal muni vinna þennan leik," segir Ana Bral í samtali við Fótbolta.net.

Þróunin er frábær en það er enn löng leið eftir
Portúgal vann virkilega sterkan sigur á Belgíu til að komast í þennan úrslitaleik. Portúgalar voru sterkari frá upphafi til enda og áttu sigurinn skilið. Fyrir þann leik voru Belgar hærra skrifaðir, rétt eins og Ísland er í kvöld.

„Þetta var góður leikur. Portúgalska hefur verið að vaxa með hverjum leiknum og hver sigur er mikilvægur fyrir okkur. Ég er mjög glöð með að sigurinn var portúgalskur."

„Kvennaboltinn í Portúgal hefur verið að vaxa gríðarlega mikið á síðustu fimm árum. Stór félög eru farin að fjárfesta meira í yngri flokka starfi og leikmenn eru að koma tilbúnari upp í meistaraflokks bolta. Þróunin er frábær, en það er enn löng leið eftir."

Hvaða leikmenn skal helst varast?
Eins og Ana kemur inn á, þá er portúgalska liðið í þróun og er að verða sterkara með hverjum leiknum. Þær léku á Evrópumótinu í sumar og sýndu þar flotta frammistöðu þó þær hafi ekki komist áfram úr riðli sínum.

Þegar Ana er beðin um að nefna þrjá bestu leikmennina í portúgalska liðinu, þá nefnir hún þrjú nöfn:

„Kika, Jessica Silva og Diana Gomes."

Diana Gomes er 24 ára gömul og leikur með Sevilla á Spáni. Hún getur leyst stöðu miðvarðar og miðjumanns. Jéssica Silva er 27 ára gömul og leikur með Cloe Lacasse hjá Benfica. Hún er öflugur framherji. Þá er Kika Nazareth vonarstjarna Portúgala, en hún er aðeins 19 ára gömul. Hún spilar einnig með Benfica og hefur nú þegar leikið 20 A-landsleiki.

Væri risastórt fyrir Portúgal
Portúgal er líkt og Ísland að reyna að komast inn á sitt fyrsta heimsmeistaramót. Ana segir að það yrði risastórt fyrir sína þjóð að komast inn á HM í fyrsta sinn og það myndi hjálpa kvennaboltanum í landinu að þróast enn frekar.

„Ég væri til í að leikurinn væri hér á Íslandi svo ég gæti farið á hann," segir Ana en hún er enn á Íslandi þrátt fyrir að tímabilinu sé lokið. „Ísland á sér stað í hjarta mínu, en ég vil samt að Portúgal vinni leikinn. Þetta verður sérstakur leikur þar sem allt er undir."

„Portúgal er að reyna að skrifa söguna. Það er búið að leggja meira í kvennaboltann í landinu síðustu ár og þess vegna er það mögulegt núna að leyfa sér að dreyma um að komast á HM," segir Ana Bral, leikmaður Fram, í samtali við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner