Fólk virðist skiptast í tvær nánast jafnstórar fylkingar þegar horft er til nýja fyrirkomulagsins á Íslandsmótinu, í Bestu deild karla. Í skoðanakönnun sem var á forsíðu Fótbolta.net segjast 47% lesenda vera ánægðir með nýja fyrirkomulagið en 53% eru hinsvegar óánægðir.
Sigmundur Steinarsson, fyrrum íþróttafréttastjóri Morgunblaðsins, er á því að nýja fyrirkomulagið sé algjörlega misheppnað. Hann er ósammála íþróttafréttamanninum Jóhanni Inga Hafþórssyni sem skrifaði um daginn að hann væri ánægður með breytinguna.
Sigmundur Steinarsson, fyrrum íþróttafréttastjóri Morgunblaðsins, er á því að nýja fyrirkomulagið sé algjörlega misheppnað. Hann er ósammála íþróttafréttamanninum Jóhanni Inga Hafþórssyni sem skrifaði um daginn að hann væri ánægður með breytinguna.
„'Nýtt fyrirkomulag lofar góðu!' skrifaði einn íþróttafréttamaður fyrir helgi, er hann sagði frá nýju fyrirkomulagi á Íslandsmótinu í knattspyrnu. Ég og fjölmargir aðrir ráku upp stór augu, já og trúðu þeim ekki! Hvað lofaði góðu?," skrifar Sigmundur í pistli á Facebook.
„Það var ljóst að lokinni deildarkeppninni, að erfitt yrði að vinna upp forskot Blika og að flestir leikir hefðu litla þýðingu. Engin spenna var í boði, eins og komið hefur í ljós. Lofaði eitthvað góðu, eins og fréttamaðurinn hélt fram? Nei, alls ekki."
„Áhuginn hefur ekki verið mikill, bæði hjá leikmönnum og áhorfendum. Hver er tilbúinn að mæta á völlinn í roki og rigningu, jafnvel snjókomu, til að horfa á leiki sem hafa enga þýðingu. Horfa á leiki sem lítið er undir og leiknir með æfingabrag, eins og einn þjálfarinn sagði og annar sagði að knattspyrnan sem boðið væri upp á, væri ekki í anda leiksins; Kýlingar og hlaup!"
„Það er flestum ljóst að nýja fyrirkomulagið gefur íslenskri knattspyrnu ekki þann byr sem vonast var eftir. Fyrirkomulagið sem samþykkt var á ársþingi KSÍ er mislukkað! Já, algjörlega! KSÍ hefur gefið knattspyrnunni á Íslandi langt nef! Fyrirkomulagið er móðgun við leikmenn og stuðningsmenn liðanna," segir Sigmundur.
Hann talar um að allra veðra von sé á Íslandi og mætingin sé léleg eftir tvískiptinguna.
„Aðsókn á knattspyrnuleikjum hefur hríðfallið í sumar. Aðvörunarbjöllur hringja í herbúðum KSÍ, sem hefur sofnað á verðinum á mörgum sviðum knattspyrnunnar, því miður! Hvað ætlið þið að gera?"
Athugasemdir