Eins og kom fram í gær þá fengu Víkingar heimaleikjabann og stóra sekt vegna hegðunar áhorfenda á bikarúrslitaleiknum gegn FH í byrjun þessa mánaðar.
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ á þriðjudag var farið yfir skýrslu frá eftirlitsmanni KSÍ á úrslitaleiknum og fékkst sú niðurstaða að Víkingur fær 200 þúsund króna sekt og FH fær 50 þúsund króna sekt. Þá fær Víkingur heimaleikjabann í einn leik og gildir það í öllum keppnum á vegum KSÍ.
Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, staðfestir í samtali við Fótbolta.net að Víkingar ætli að áfrýja þessum dóm.
„Víkingur hefur staðfest skriflega að þeir boði áfrýjun. Þá er þessu banni frestað þangað til áfrýjunardómstóll KSÍ fer yfir málið. Við erum með tvö dómstig: Aga- og úrskurðarnefnd og áfrýjunardómstól KSÍ. Víkingur hefur staðfest það skriflega að þeir ætli að áfrýja úrskurði nefndarinnar," segir Klara.
Víkingar þurfa að ákveða um nýjan heimavöll ef áfrýjunin gengur ekki upp, félagið þarf að finna nýjan heimavöll í einn leik. Sá leikur mun ekki fara fram fyrir luktum dyrum.
„Ég get ekki svarað um það," segir Klara aðspurð að því af hverju er ekki leikið á bak við luktar dyr frekar en að það sé skipt um heimavöll. Stuðningsfólkið sem lét illa á bikarúrslitunum getur enn mætt þó að leikurinn fari fram á öðrum leikvangi.
„Aga- og úrskurðarnefnd starfar sjálfstætt og ég sit ekki fundi nefndarinnar. Í rauninni sé ég bara úrskurðinn þegar hann er gefinn út. Aga- og úrskurðarnefnd notar þau viðurlög sem eru ákvörðuð í reglugerðum."
Sektin rennur í góðgerðarmál
Það vakti athygli í gær að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ skyldi sekta KSÍ fyrir framkvæmd á leiknum.
„Að virtri greinargerð Knattspyrnusambands Íslands og öðrum fyrirliggjandi gögnum er það álit nefndarinnar að við framkvæmd úrslitaleiks bikarkeppninnar hafi öryggi og regla ekki verið tryggð. Sérstaklega hafi öryggi leikmanna, dómara, þjálfara, áhorfenda og annarra ekki verið nægilega tryggt fyrir leik, á meðan leik stóð og eftir að leik lauk. Er það jafnframt mat nefndarinnar að KSÍ sem framkvæmdaraðila leiksins hafi ekki tekist að sýna fram á að skipulagning og framkvæmd leiks hafi ekki á nokkurn hátt verið gáleysisleg," sagði í dómnum.
Því var KSÍ sektað um 200 þúsund krónur, en ekki er vitað til þess að þetta hafi gerst áður.
„Við vitum ekki til þess að þetta hafi gerst áður, en við höfum ekki lesið yfir allar ársskýrslur og annað slíkt. Þar með er sagt ekki útilokað að það hafi aldrei verið gert en við munum ekki eftir fordæmi fyrir slíku," segir Klara.
Hvert fer þessi sekt?
„Eins og þetta snýr að okkur núna þá munum við una niðurstöðu nefndarinnar. Við erum ekki sammála öllu sem kemur fram en við munum una niðurstöðunni. Aga- og úrskurðarnefnd er nefnd sem knattspyrnuþingið kýs. Við sjáum okkur fyrir að þessi sekt muni renna í gott málefni."
Hún muni þá fara í góðgerðarmál. „Það er hugmyndin hjá okkur, já. Það er eðlilegast að þessi sekt renni í gott málefni," segir Klara.
Sjá einnig:
Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ sektar KSÍ
Athugasemdir