Guehi vill fara til Liverpool - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Kolo Muani til Newcastle?
banner
   fös 14. október 2022 11:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Snýr til baka eftir sex ár hjá Völsa - „Hafði hugsað mér að gera þetta aftur"
Skýr stefna að fara talsvert mikið ofar með liðið
Jóhann Kristinn Gunnarsson
Jóhann Kristinn Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Moli og Jói
Moli og Jói
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Jói og Gaui Þórðar mættust í sumar.
Jói og Gaui Þórðar mættust í sumar.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Við værum galin að reyna ekki að fá hann í þetta
Við værum galin að reyna ekki að fá hann í þetta
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Sandra María Jessen er eini leikmaður liðsins í dag sem varð Íslandsmeistari árið 2012.
Sandra María Jessen er eini leikmaður liðsins í dag sem varð Íslandsmeistari árið 2012.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er frábær spurning. Þetta var nú eitthvað sem ég hafði hugsað mér að gera aftur eftir að ég hætti þarna síðast. Eftir að hafa heyrt í þeim nokkrum sinnum og ákvað að taka fund með þeim og svona, þá leist mér vel á þetta. Tímapuntkurinn er fínn, búinn að vera lengi hjá Völsa, komin sex ár, breyta til og leist vel á hugmyndirnar á Akureyri," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, nýr þjálfari Þór/KA, í samtali við Fótbolta.net í dag. Hann var spurður hvað hefði komið til að hann ákvað að taka við starfi sem þjálfari Þór/KA.

Það er starf sem Jóhann þekkir vel. Hann þjálfaði liðið á árunum 2012-2016 og gerði liðið að Íslandsmeisturum árið 2012. Hin tímabilin endaði liðið í 4. sæti deildarinnar og árið 2013 fór hann með liðið í bikarúrslit. Jóhann, sem verður 43 ára í næsta mánuði, hefur síðustu sex tímabil þjálfað lið Völsungs á Húsavík.

Var Jói, eins og hann er iðulega kallaður, nálægt því að taka við Þór/KA síðustu ár?

„Þetta kom alveg upp einhvern tímann. Maður skoðaði alltaf hlutina annað slagið, þetta var einhver möguleiki eins og annað."

Rosaleg breyting
Tíu ár eru frá því að Jói gerði liðið að Íslandsmeisturum. Sandra María Jessen er eini leikmaðurinn sem varð meistari þá með liðinu sem nú er í hópnum.

„Það er búin að vera rosaleg breyting og það er auðvitað ungur hópur sem er þarna. Það er margt búið að breytast síðan ég var þarna síðast. Núna er þetta ekki bara meistara- og annar flokkur. Þetta er komið niður í þriðja og komið meira svona starf á þetta. Þetta er orðið líkara hefðbundnu félagi þó að það sé skástrik í meistaraflokki. Maður þarf að huga mjög vel að því að vera ekki bara að hugsa um meistaraflokk og kannski niður í annan, heldur alveg niður í þriðja og jafnvel fjórða."

Alltaf grjótharður Völsungur
Var erfitt að kveðja Völsung?

„Já, það er hryllilega erfitt. Ég lít svo sem aldrei á að ég sé að kveðja Völsung neitt. Maður er alltaf hérna og er að hjálpa til ef maður getur á einhvern hátt, hvort sem það sé að finna þann sem tekur við eða annað. Maður er alltaf grjótharður Völsungur."

„Alveg raunsær þó að þetta sé alltaf svekkjandi"
Á síðustu sex tímabilum hefur Völsungur í tvígang endað í fjórða sæti og einu sinni í þriðja sæti. Er það svekkjandi að hafa ekki náð að koma liðinu upp um deild?

„Það er alltaf svekkjandi eins og að tapa fótboltaleik. Markmiðið var að komast upp og það er búið að vera svekkjandi. Við erum samt að gera þetta á ákveðin hátt og við vitum alveg að það er ákveðin skref sem hægt væri að taka til þess að fara upp. Félagið er kannski ekki endilega í stakk búið til að taka þessi skref."

„Skrefin kosta mikið og snúa að starfinu, umgjörðinni og leikmannamálum. Við vitum alltaf af því að þegar við erum að stefna á að fara upp þá þarf allt að ganga upp. Við erum kannski ekki með fúndamentið og bolmagnið fjárhagslega til að stíga þetta skref sem sést í því hvernig Njarðvík og Þróttur fara upp. Maður er alveg raunsær þó að þetta sé alltaf svekkjandi því við höfum stundum verið svolítið nálægt því."


Vilja fara með liðið talsvert mikið ofar í töflunni
Hvernig er samtalið við stjórn Þór/KA? Er búið að leggjast yfir einhver markmið fyrir komandi tímabil? Eða einhverja uppbyggingu sem þarf að fara í gang?

„Ég lít svo á að það hafi alltaf verið uppbygging í gangi hjá Þór/KA og geri ekki lítið úr henni. Uppbygging, hún skilar alltaf einhverju, þótt það sé ekki alltaf árangur í töflunni. Maður nýtur góðs af því og ungir leikmenn hafa fengið feyki mikilvæga reynslu og eru ennþá meira tilbúnir í baráttuna."

„Þó að það sé ekki búið að gefa út nein markmið, ég hef ekki hitt hópinn ennþá og við vitum ekki hvernig hann mun líta nákvæmlega út, þá er alveg skýr stefna hjá öllum sem koma að þessu núna að fara með liðið ofar í töflunni. Og talsvert mikið ofar. Byggja á því sem er til staðar, styrkja bæði starfið og leikmannahópinn þannig að við getum farið að keppa á þeim stað sem okkur finnst liðið að eiga vera á."


Ekki hægt að gera þetta án aðkomu Mola
Hverjir munu koma til með að aðstoða Jóa?

„Nú er þessi vinna í gangi, að smíða teymi. Það er alveg vel á veg komið og verður tilkynnt á næstunni hvernig þetta lítur allt út. Mér fannst þeir sem hafa verið að starfa í og við þetta, hvort sem það er í 2. flokknum og jafnvel í 3. flokki, þá fannst mér liggjast beinast við að athuga með þann mannskap fyrst. Það er ekki ólíklegt að það verði vel þekkt nöfn úr þeim hópi sem gætu komið að þessu."

„Það er mjög mikilvægt að hafa gott fólk sem þekkir vel til þarna. Ég var með Mola (Siguróla Kristjánsson) mér til aðstoðar í fimm ár og það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi en að aðkoma hans sé einhver - hvernig sem það verður. Ágústa Kristinsdóttir verður yfir yngri flokkum Þór/KA og hún verður klárlega okkur innan handar í þessu öllu saman, mjög mikilvæg og góð tenging. Svo hefur Peddi (Pétur Heiðar Kristjánsson) verið í 2. flokknum. Mér finnst mjög mikilvægt að hann verði þarna í þessu líka, hann er frábær þjálfari. Við værum galin að reyna ekki að fá hann í þetta. Frágengið teymi kemur örugglega á næstu dögum."


Er ekkert mál að vinna þetta starf verandi búsettur á Húsavík?

„Þetta er í sjálfu sér ekkert stórkostlegt að keyra þessa leið á milli. Þetta er svipað og að vera keyra úr bænum og á Suðurnesin. Þetta er eitthvað sem ég vandist ágætlega og í ofanálag eru göngin komin. Það er ekkert mál," sagði Jói að lokum.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner