
Það vakti nokkra athygli fyrir leik Íslands og Portúgal í umspilinu fyrir HM að landslið Íslands skyldi leka út í fjölmiðla.
Vísir sagði frá því hvernig byrjunarliðið væri nokkrum klukkutímum fyrir leik.
Í frétt Vísis var sagt frá því að einungis ein breyting yrði á byrjunarliðinu frá leiknum gegn Hollandi sem var í síðasta mánuði. Selma Sól Magnúsdóttir myndi koma inn fyrir Svövu Rós Guðmundsdóttur.
Það varð raunin, en þetta vakti athygli enda ekki oft sem byrjunarlið Íslands er birt á fjölmiðli mörgum klukkutímum fyrir leik. Það er hægt að færa rök fyrir því að þetta hjálpi andstæðingnum.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, var spurður að því eftir leik hvort þetta hefði farið í taugarnar á sér.
„Nei, ekkert þannig. Þið eruð náttúrulega alltaf eins og mýs út um allt að reyna að finna einhverjar upplýsingar," sagði Þorsteinn.
Stelpurnar okkar töpuðu 4-1 gegn Portúgal og þurfa því að bíða enn frekar eftir því að fara á HM í fyrsta sinn.
Athugasemdir