Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   þri 15. júlí 2014 15:40
Arnar Daði Arnarsson
Albert Brynjar á förum frá FH
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Brynjar Ingason leikmaður FH er á förum frá liðinu. Þetta staðfesti hann í samtali við Fótbolta.net.

,,Það verður líklega niðurstaðan í þessum glugga að ég yfirgefi FH. Það tengist alls ekkert spilatíma mínum hjá FH. Ég er hreinlega spenntur fyrir nýjum áskorunum og finnst rétti tímapunkturinn að fara í annað lið núna," sagði Albert Brynjar sem var nýkominn úr sprautu á nára en hann hefur verið að glíma við meiðsli í nára síðan í bikarleiknum gegn KR.

FH-liðið er þessa stundina á ferðalagi til Hvíta-Rússlands en þeir leika í forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn. Albert Brynjar fór ekki með liðinu út.

,,Það liggur ekkert fyrir hendi hvert ég fer. Glugginn var að opna. Eina sem ég veit er að ég er líklega á förum. Fylkir kemur alltaf vel til greina. Það er ekkert hægt að fara leynt með það. Það vita það allir að Fylkir er mér alltaf ofarlega í huga," sagði Albert Brynjar sem er uppalinn í Árbænum.

Þrátt fyrir að FH hafi tilkynnt síðasta haust að Albert Brynjar hafi framlengt samning sinn við félagið er hann skráður samningslaus frá síðustu áramótum þegar flett er í skrám KSÍ. Honum er því frjálst að skipta um félag velji hann það.

,,Þetta er eitthvað mál sem ég hef heyrt en ég þekki þetta ekki sjálfur. Ég veit ekkert hvernig þessi mál virka. Þetta eru einhver mál sem ég skipti mér ekkert að," sagði Albert Brynjar að lokum í samtali við Fótbolta.net.



Athugasemdir
banner