Íslenska landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir skoraði fyrra mark West Ham United sem lagði Aston Villa, 2-1, í WSL-deildinni á Englandi í dag. Guðný Árnadóttir var þá í byrjunarliði Milan sem tapaði fyrir Önnu Björk Kristjánsdóttur og félögum hennar í Inter, 4-0.
Dagný var eins og alltaf með fyrirliðabandið í leik West Ham og Aston Villa. Það tók hana tæpar tvær mínútur að koma Hömrunum yfir en það kom eftir hornspyrnu Kirsty Smith og stýrði Dagný boltanum í netið.
Hún lék allan leikinn í liði West Ham í dag en þetta var annar sigur liðsins á tímabilinu. West Ham er í 6. sæti með 6 stig eftir fjóra leiki.
Guðný Árnadóttir lék allan leikinn fyrir Milan sem tapaði fyrir Inter, 4-0, í nágrannaslag í Seríu A. Anna Björk Kristjánsdóttir sat allan tímann á varamannabekk Inter. Lið Inter er á toppnum með 16 stig en Milan í 5. sæti með 9 stig.
Alexandra Jóhannsdóttir kom inná sem varamaður á 53. mínútu í 1-0 sigri Fiorentina á Pomigliano. Fiorentina er í 2. sæti með 15 stig.
Sveindís Jane Jónsdóttir kom inná sem varamaður á 75. mínútu í 2-0 sigri Wolfsburg á Potsdam í þýsku deildinni. Wolfsburg er með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.
Þá vann Vålerenga 1-0 sigur á Rosenborg í meistarariðlinum í Noregi. Ingibjörg Sigurðardóttir lék allan leikinn í vörn Vålerenga og Selma Sól Magnúsdóttir spilaði þá allan leikinn fyrir Rosenborg, en þetta þýðir það að Vålerenga er með 11 stig í 2. sæti riðilsins á meðan Rosenborg er í 3. sæti með 8 stig.
Athugasemdir