Brasilíski sóknarmaðurinn Richarlison hágrét eftir að hann fór meiddur af velli í 2-0 sigri Tottenham á Everton í ensku úrvalsdeildinni í dag en leikmaðurinn óttast það að HM-draumurinn sé úti.
Sóknarmaðurinn hefur verið sérstaklega heitur með brasiíska landsliðinu og skorað 7 mörk í síðustu 6 leikjum liðsins.
Sæti hans í landsliðinu er svo gott sem öruggt en það er nú í hættu eftir að hann meiddist gegn Everton.
Richarlison meiddist aftan í kálfa og fer í frekari skoðanir á mánudag til að sjá alvarleika meiðslanna.
„Ég veit að það er erfitt að tala um þetta á þessari stundu, en það kemur í ljós. Ég mun jafna mig. Ég er í myndatöku á mánudaginn, en ég meiði mig bara við það að labba. Ég verð að vera jákvæður ef ég vil komast til Katar," sagði Richarlison.
„Það er svo stutt í það. Það er mánuður í mótið og við höfum verið að undirbúa okkur. Ég legg mig fram á hverjum degi til að koma í veg fyrir að eitthvað alvarlegt gerist, en í dag þá varð ég því miður fyrir meiðslum aftan í kálfa. Núna er það bara að bíða og mæta í endurhæfingu á hverjum degi svo ég nái mér sem fyrst," sagði hann í lokin.
Athugasemdir