Aron Bjarnason skoraði fjórða mark sitt á tímabilinu er Sirius lagði Norrköping, 2-0, í sænsku úrvalsdeildinni í dag. Valgeir Lunddal Friðriksson og hans menn í Häcken færast þá nær titlinum eftir að hafa unnið Sundsvall, 4-1.
Valgeir spilaði allan leikinn í hægri bakverðinum í sigri Häcken en liðið er nú með sex stiga forystu á toppnum þegar fjórar umferðir eru eftir, en að vísu á Djurgården, sem er í öðru sæti, leik til góða, en það verður langt í frá auðvelt þar sem andstæðingur liðsins er AIK. Häcken er með 54 stig en Djurgården með 48 stig.
Þá skoraði Aron Bjarnason fjórða mark sitt á tímabilinu fyrir Sirius í 2-0 sigri á Norrköping. Aron og Óli Valur Ómarsson voru í byrjunarliði Sirius, en Óli fór af veli á 61. mínútu og Aron svo 25 mínútum síðar.
Arnór Ingvi Traustason og Ari Freyr Skúlason voru báðir í byrjunarliði Norrköping. Arnór Ingvi fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks og þá var Ara skipt af velli í hálfleik. Andri Lucas Guðjohnsen kom inn í hans stað. Arnór Sigurðsson var ekki með í dag. Sirius er í 11. sæti með 30 stig en Norrköping einu sæti neðar með 29 stig.
Davíð Kristján Ólafsson lék allan leikinn er Kalmar vann Värnamo, 3-1. Kalmar er í 3. sæti með 47 stig og í harðri baráttu um Evrópusæti.
Athugasemdir