Björn Bergmann Sigurðarson og félagar hans í Molde eru norskir meistarar eftir að hafa unnið Lilleström, 1-0, í 26. umferð deildarinnar í dag.
Björn Bergmann, sem hefur verið að glíma við meiðsli allt tímabilið, hefur ekki komið við sögu í einum leik hjá liðinu. Hann er samningsbundinn Molde út þetta ár en ekki er ljóst hvað tekur við hjá honum eftir það.
Lið hans vann Lilleström 1-0 í dag. Hólmbert Aron Friðjónsson sat allan tímann á bekknum hjá Lilleström, en Molde er nú með 66 stig, fimmtán stigum meira en Bodö/Glimt sem vann 6-0 stórsigur á Vålerenga í dag.
Alfons Sampsted lék allan leikinn í vörn Bodö/Glimt en Brynjar Ingi Bjarnason var allan tímann á bekknum hjá Vålerenga. Bodö og Rosenborg eru í góðum málum til að komast í Sambandsdeildina á næsta tímabili en Bodö er með 51 stig á meðan Rosenborg er í 3. sæti með 50 stig. Lilleström kemur næst með 47 stig.
Patrik Sigurður Gunnarsson stóð í rammanum hjá Viking sem tapaði fyrir Sarpsborg, 1-0. Þá sat Brynjólfur Andersen Willumsson allan tímann á bekknum er Kristiansund tapaði fyrir Haugesund, 1-0.
Kristiansund er í næst neðsta sæti með 18 stig þegar fjórar umferðir eru eftir en Sandefjord er í umspilssætinu fyrir ofan þá með 23 stig.
Athugasemdir