Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari HK var ekki ánægður með 4-1 tap sinna manna gegn Stjörnunni á Samsungvellinum fyrr í kvöld. HK er í örlitlu brasi í deildinni með aðeins einn sigurleik og þurfa að fara að snúa taflinu við.
Lestu um leikinn: Stjarnan 4 - 1 HK
„Ég er mjög fúll já, sérstaklega þar sem mér fannst leikurinn bara mjög jafn í fyrri hálfleik. Munurinn á liðunum var bara að Stjarnan kláraði færin sín betur en við, 1-1 hefði verið sanngjarnt inn í hálfleikinn.''
Annan leikinn í röð eru HK-ingar sprækir og hættulegir fyrir framan mark andstæðingsins en fara undir inn í hálfleikinn, hvar liggja vandamál HK?
„Við erum bara að leka of mikið af mörkum, það er ekki flóknara en það. Við erum búnir að tala um samvinnu varnar og markmanns og það er ekki að koma fram í leikjunum það sem við höfum rætt um.''
Brynjar Björn fær eina gula spjald leiksins, var hann ósáttur með dómgæsluna?
„Ég var ekki ósáttur með dómgæsluna sem slíka, það er bara þessi gamla góða lína sem er alltaf verið að reyna að halda, hún hefur bara ekki verið okkar megin þessa dagana og við verðum bara að bíta í það súra, vonandi lagast það eða jafnast út þegar tímabilið líður.''
HK hefur aðeins unnið einn leik af sjö, hvað þurfa HK-ingar að gera til að snúa við taflinu?
„Við þurfum að fara að gera betur, það er klárt. Við erum á svipuðum slóðum og í fyrra en það þýðir lítið að tala um það, það er nýtt tímabil og við þurfum að fara að rífa okkur í gang, það er ljóst.''
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan en þar talar Brynjar nánar um leikinn, vítið sem hann vildi fá og gagnrýni á varnarleik liðsins.
Athugasemdir