Real Madrid vill Enzo og Huijsen - Liverpool, Arsenal og Man Utd hafa áhuga á Gibbs-White - Sane orðaður við Liverpool
   fös 21. október 2022 17:05
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Jörundur: Þarf að vera sá sem er leiðinlegur og spyr erfiðra spurninga
Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki hefur starfað sem þjálfari í yngri landsliðum Íslands.
Jörundur Áki hefur starfað sem þjálfari í yngri landsliðum Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Íslands og Tékklands í umspilinu fyrir EM U21. Ísland tapaði því einvígi naumlega.
Úr leik Íslands og Tékklands í umspilinu fyrir EM U21. Ísland tapaði því einvígi naumlega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jörundur Áki Sveinsson var fyrir viku síðan ráðinn yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ.

KSÍ auglýsti stöðuna í ágúst síðastliðinn en Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari hafði gengt þessari stöðu áður.

Það voru fjórir sem sóttu um og hreppti Jörundur Áki stöðuna. Jörundur er með mikla reynslu af þjálfun en hann hefur verið starfsmaður knattspyrnusviðs KSÍ síðustu ár og þjálfari U16 og U17 landsliða karla. Jörundur hefur þjálfað U21, U17 og U16 landslið karla og öll landslið kvenna og á að baki um eitt hundrað leiki sem aðalþjálfari landsliða, auk fjölmargra leikja sem aðstoðarþjálfari.

„Ég var beðinn um að taka yfir ákveðinn hluta af störfum Arnars Þórs sem er búinn að vera í þessu starfi. Þegar ég var búinn að vera máta mig í þessu starfi þá fann ég alveg að þetta var eitthvað sem mig langaði að sjá hvort ég gæti fengið alfarið," sagði Jörundur Áki í útvarpsþættinum Fótbolta.net síðasta laugardag.

„Ég fór ekkert í felur með það að ég sótti um og fór í gegnum það ferli sem fór af stað í kjölfarið. Ég er auðmjúkur og þakklátur því trausti sem mér er sýnt. Vonandi stend ég undir því."

Í starfsyfirlýsingunni sagði meðal annars: Yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ vinnur að því að efla faglega þekkingu og framþróun á knattspyrnusviði sambandsins þannig að sviðið standist alþjóðlegan samanburð. Sviðsstjóri hefur auk þess umsjón með markmiðasetningu því tengdu og vinnur að þróun afreksstefnu sambandsins.

Jörundur var spurður út í sínar hugmyndir í þættinum. „Ég er með ákveðnar pælingar til dæmis um allar þessar nýjungar sem eru á fleygiferð. Mínar pælingar eru til dæmis að setja á laggirnar knattspyrnuvísindasvið. Það er vinnuheitið í dag. Þar sem við erum að reyna að efla þann hluta fótboltans fyrir þá aðila sem vilja ekki vera þjálfarar út á velli, fyrir þá sem vilja fá þá leið að vera styrktarþjálfarar, greinendur... það er eitt af því sem ég vil koma á laggirnar."

„Að sjálfsögðu er eitt af mínum verkefnum að efla starf yngri landsliðana, að fjölga verkefnum. Það hefur alltaf verið baráttumál. Ef við ætlum ekki að sitja eftir þá þurfum við að skoða það hvernig við fjölgum leikjum hjá yngri landsliðum til að búa til framtíðar landsliðsfólk. Við erum á ákveðinni vegferð með það."

„Þetta eru dæmi um það í hverju þetta starf felst," sagði Jörundur Áki en hann talaði einnig um heilbrigðismál og fleira; hans starf er að efla fótboltalegu hlið sambandsins..

Hann er tekinn við starfinu og hefst strax handa. „Það er góður andi og virkilega gaman að mæta í vinnuna á hverjum degi," segir Jörundur sem reiknar með því að minnka við sig þjálfunina núna þegar hann er tekinn við þessu starfi.

Tengist hann A-landsliðunum?
Jörundur kemur til með að vinna með yngri landsliðunum, en mun hann starfa eitthvað í kringum A-landsliðin tvö?

„Ég er ekki yfirmaður A-landsliðsþjálfara. Það eru formaður og framkvæmdastjóri ásamt landsliðsnefndum. Hins vegar get ég alveg sagt ykkur það að mitt starf sem viðkemur A-landsliðunum er fyrst og fremst að styðja við það starf sem þar er unnið, við þjálfara, við teymin, vera tengiliður við framkvæmdastjóra, formann, nefndir og svo framvegis. Ég þarf að vera sá aðili sem er leiðinlegur og spyr þjálfara erfiðra spurninga."

„Ég þarf að sjá hvernig við getum bætt starfið og það skiptir máli að það sé mikið og gott traust á milli A-landsliðsþjálfara og mín. Það hefur gengið mjög vel."

Á hann þá lokaákvörðunina?
Það var mikil umræða um það fyrir nokkrum vikum þegar U21 landsliðið var að berjast fyrir því að komast inn á Evrópumótið og lék í umspili fyrir EM. Á sama tíma lék A-landsliðið nokkuð mikilvægan leik í Þjóðadeildinni en sæti á stórmóti var ekki undir þar.

Það var umræða um það hvort það ætti að færa leikmenn úr A-landsliðinu og í U21 þar sem það voru þónokkrir á þeim aldri í A-landsliðshópnum. Arnar Þór Viðarsson kaus að gera ekki.

Hvað hefði Jörundur gert í sínu starfi - sem hann er í núna - þegar þessi staða kom upp?

„Það er mjög gott að þið skuluð nefna þetta dæmi. Ég var nokkurn veginn í þessu starfi þegar þetta mál kom upp. Þið í fjölmiðlum vitið ekki allt sem gerist bak við tjöldin hjá okkur en við vorum búin að eiga samtal og ræða þessi mál áður en farið var af stað í verkefnið," segir Jörundur.

„Við Davíð Snorri vorum ekki að setja neina pressu á að fá leikmenn úr A-liðinu. Við vorum sáttir við þann hóp sem við vorum að vinna með. Að sjálfsögðu tókum við samtalið við Arnar og Jóa eftir að úrslit voru ljós í Ísrael (að Ísland gæti ekki unnið sinn riðil í Þjóðadeildinni). Ég tók það samtal og það var mjög skýrt. Við vorum ekki að setja pressu á að fá neinn inn í hópinn og þeir áttu lokasvarið. Það var einfalt mál. Við vildum ekki eyða orkunni of mikið í það því við vorum ánægðir með okkar hóp."

Ef þetta kemur fyrir aftur, á Jörundur þá lokatkvæðið ef það eru deilur?

„Ég hugsa það, já. Þá myndi ég skerast í leikinn - ef menn geta ekki komið sér saman um þetta. Ég myndi gera það, hafðu ekki neinar áhyggjur," sagði Jörundur en hægt er að hlusta á allt viðtalið hér fyrir neðan.

Hægt er að skoða afreksstefnu KSÍ með því að smella hérna en landsliðin vinna eftir henni og hérna er hægt að lesa betur um nýtt starf Jörunds Áka.
Útvarpsþátturinn - Ómar Ingi og helstu boltamálin
Athugasemdir
banner
banner