Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 22. febrúar 2018 13:00
Magnús Már Einarsson
Heimir skoðar sín mál eftir HM: Ég er að setja mitt starf í hættu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, segist vilja sjá hvaða starfstilboð verða í boði eftir HM í Rússlandi í sumar. Samningur Heimis rennur út í sumar en búið er að fresta samningaviðræðum og gefa út að samningamálin verði ekki skoðuð fyrr en eftir HM.

Smelltu hér til að hlusta á Heimi Hallgríms í Návígi

„Þegar HM lýkur er ég búinn að vera í sjö ár í vinnu hjá A-landsliði karla. Það er helmingi lengur en það lengsta hingað til. Mig langar að sjá hvort það sé eitthvað annað í boði," sagði Heimir í Návígi með Gunnlaugi Jónssyni sem birtist á Fótbolta.net í dag.

„Mig langar að vera áfram og auðvitað myndi ég vilja hafa það þannig að ég gæti bara ákveðið það sjálfur eftir HM hvort ég verði áfram eða ekki. Samningurinn minn væri tilbúinn og enginn ráðinn í staðinn. Ég veit að þannig er þetta ekki í dag. Ég er að taka smá áhættu með því að fá að biðja um það að fá að bíða með þetta."

Vill sjá hvað verður í boði
Heimir var á dögunum orðaður við landsliðsþjálfarastöðu Skota en hann segist í Návígi ekki hafa heyrt beint frá skoska knattspyrnusambandinu eða öðrum. Heimir vill sjá hvaða tilboð bjóðast eftir HM áður en hann fer aftur í viðræður við KSÍ.

„Við tökum ákvörðun viku eða tveimur eftir að HM lýkur. Ástæðan er sú að það er óalgengt að íslenskur þjálfari geti tekið skref erlendis. Það eru ekki margir íslenskir þjálfarar sem hafa gert það og ekki margir Skandinavískir þjálfarar sem hafa þjálfað fyrir utan Skandinavíu. Ég er í þeirri stöðu að kannski verður einhver eftirspurn og mig langar til að sjá hvað verður í boði."

„Þetta er aðeins eigin hagsmunasemi. Ég verð að hugsa svolítið um mig. Ég hef metnað í þjálfun. Ég er svolítið að nýta árangur strákanna og sjá hvað er í boði fyrir mig."

„Hættan fyrir mig er að íslenska landsliðið er risastórt og eftirsóknarvert þjálfarastarf. Það verða þjálfarar sem hafa samband og segjast vera tilbúnir að þjálfa íslenska landsliðið. Eðlilega mun KSÍ skoða þau mál fyrst að við gengum frá þessu svona. Ég er í leiðinni að segja við Knattspyrnusambandið að því sé frjálst að skoða eitthvað annað. Ég er að setja mitt starf í hættu. Ég get ekki ætlast til þess að ég ráði því hvað Knattspyrnusambandið gerir."

„Ég er búinn að vera lengi í þessu starfi en ég er langt í frá þreyttur á þessu. Mig langar að halda áfram. Framhaldið hjá karlalandsliðinu er geðveikt næstu ár. Strax eftir HM er þessi Þjóðadeild sem verður frábær. Við eigum eftir að sjá og snerta það hversu stórt það verður. Árið 2019 eru allir leikdagar í undankeppni EM. Það ár verður gríðarlega skemmtilegt. Við verðum aldrei neðar en í öðrum styrkleikaflokki þegar dregið verður í þá undankeppni núna í desember. Við höfum aldrei verið í betri stöðu hvað varðar að komast í lokakeppni EM,"
sagði Heimir.


Smelltu hér til að hlusta á Heimi Hallgríms í Návígi

Til að nálgast þættina í Apple tækjum þarf einungis að leita að "Fótbolti.net" í iTunes Podcast, eða sambærilegum forritum s.s Overcast.

Á sama hátt er hægt að nálgast þættina í Android tækjum með því að nota sambærileg forrit, s.s Pocket Casts eða Podcast Addict, og leita að "Fótbolti.net".


Fyrri návígi:
Heimir Guðjónsson - Fyrri hluti
Heimir Guðjónsson - Seinni hluti
Athugasemdir
banner
banner