Íslenska kvennalandsliðið hefur leik í undankeppni Evrópumótsins í byrjun næsta mánaðar. Fyrst mætum við Póllandi heima áður en liðið heldur til Þýskalands nokkrum dögum síðar.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, tilkynnti hóp sinn fyrir þessa leiki í dag. Það er ein breyting frá hópnum sem kláraði síðasta verkefni en Fanney Inga Birkisdóttir er klár í slaginn eftir meiðsli. Hún var í upprunalega hópnum síðast en þurfti að draga sig út vegna meiðsla. Hún kemur aftur inn fyrir Aldísi Guðlaugsdóttur.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, tilkynnti hóp sinn fyrir þessa leiki í dag. Það er ein breyting frá hópnum sem kláraði síðasta verkefni en Fanney Inga Birkisdóttir er klár í slaginn eftir meiðsli. Hún var í upprunalega hópnum síðast en þurfti að draga sig út vegna meiðsla. Hún kemur aftur inn fyrir Aldísi Guðlaugsdóttur.
Fanney, sem er á mála hjá Val, spilaði stórkostlega gegn Danmörku í sínum fyrsta landsleik seint á síðasta ári og er líkleg til að koma inn í markið í þessu verkefni. Baráttan er á milli hennar og Telmu Ívarsdóttur, markvarðar Breiðabliks. Þorsteinn segir það gott að halda í svipaðan hóp þó það sé aldrei auðvelt að velja hópinn.
„Ég held að það sé gott fyrir okkur að halda áfram með svipaðan hóp þannig að við þurfum ekki að vera að koma leikmönnum inn í ákveðna hluti. Við getum haldið áfram að vinna í okkar hlutum og markvisst að því sem við höfum verið að gera," sagði landsliðsþjálfarinn á fréttamannafundi í dag.
„Það er alltaf ákveðinn hausverkur að velja hóp. Sem betur fer höfum við úr fjölda leikmanna að velja. Maður var alveg í einhverjum pælingum að breyta. En það er ákvörðun sem ég tók að hafa sömu útileikmenn í hópnum. Verkefnið leggst vel í mig. Þetta eru bara sex úrslitaleikir sem við förum í og markmiðin okkar eru skýr í riðlakeppninni með það hvað við ætlum að gera. Vonandi byrjum við því á heimavelli að spila góðan leik og ná í góð úrslit. Við förum í alla leiki til að vinna og annað hugsum við ekki um annað."
Sú markahæsta í Þýskalandi
Fyrsti leikur er á móti Póllandi og það má búast við erfiðum leik þar, svo sannarlega. Þorsteinn segir að pólska liðið sé ólíkt Serbíu sem Ísland vann í umspili um að halda sér í A-deild Þjóðadeildarinnar í síðasta mánuði.
„Ég er búinn að horfa töluvert á pólska liðið. Þær voru í riðli með Serbíu í Þjóðadeildinni og var ég búinn að horfa nokkuð oft á leiki með þeim áður en dregið var núna. Pólska liðið er ólíkt Serbíu, það er meiri kraftur og þær eru beinskeyttari. Þær eru með góða leikmenn fram á við og er markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar í þeirra liði, Ewa Pajor (úr Wolfsburg)."
„Það er hraði í liðinu og þær eru mjög áræðnar. Við munum eiga hörkuleik við þær á Kópavogsvelli. Þær eru líkari okkur en Serbíu. Pólland hefur lagt töluverða peninga í kvennaboltann og það er verið að leggja mikið í þetta hjá þeim."
Það var gleðilegt
Í riðlinum með Íslandi eru Austurríki, Pólland og Þýskaland. Það má með sanni segja að okkar stelpur hafi sloppið vel og möguleikarnir séu góðir en efstu tvö liðin fara beint á EM. Ísland var dregið síðast úr þriðja styrkleikaflokki en ef liðið hefði komið upp úr kúlunni á undan þá hefði liðið okkar verið í dauðariðli með Frakklandi, Englandi og Írlandi.
„Það var gleðilegt, ég skal alveg viðurkenna það," sagði Þorsteinn á fréttamannafundinum er hann var spurður að því hvernig viðbrögð hans voru við því að sleppa við dauðariðilinn.
„Þegar maður horfði í riðlana þá vildi ég ekki lenda með Spáni. Okkur langar ekki í eltingaleik. Svo var aðalatriðið að lenda ekki með Englandi því þá varstu að fá lið úr öðrum styrkleikaflokki sem var mjög sterkt. Þegar Frakkar og Englendingar drógust saman og bara tveir riðlar eftir, þá var þetta bara 50/50. Ég skal viðurkenna að ég fagnaði."
„Auðvitað eru þetta allt góð lið. Við þekkjum Austurríki líka eftir að hafa spilað við og unnið þær í fyrrasumar. Riðillinn er sterkur að sjálfsögðu en ef við eigum góða leiki þá eigum við góða möguleika á að ná markmiðum okkar. Við þurfum að byrja á því á Kópavogsvelli að eiga góðan leik og ná í góð úrslit. Svo tökum við bara eitt skref í einu eftir það."
Sá gluggi er leiðinlegur
Þessi undankeppni verður spiluð hratt og segir Þorsteinn það gott. Hann segir hins vegar að júlíglugginn verði flókinn þar sem leikmenn í vetrardeildum verði þá nýkomnar úr sumarfríi.
„Ég held að það sé jákvætt að það sé stutt á milli. Þá ertu stöðugt að spila þessa keppnisleiki og ég held að það sé jákvætt. Þó finnst mér þessi júlígluggi alveg út úr korti. Hann er skrítinn því vetrardeildirnar eru að koma úr sumarfríi og eru að fara inn í undirbúningstímabil. Þá fara þær beint í landsleikjaglugga. Það er ekki draumastaða varðandi ástand leikmanna," segir Þorsteinn og bætir við:
„Sá gluggi er leiðinlegur en það er gott að spila svona þétt á milli. Það hjálpar að það sé ekki langt á milli leikja."
Leikir Íslands í undankeppni EM 2025:
Ísland - Pólland föstudaginn 5. apríl
Þýskaland - Ísland þriðjudaginn 9. apríl
Austurríki - Ísland föstudaginn 31. maí
Ísland - Austurríki þriðjudaginn 4. júní
Ísland - Þýskaland föstudaginn 12. júlí
Pólland - Ísland þriðjudaginn 16. júlí
Athugasemdir