Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 17:40
Ívan Guðjón Baldursson
England: John Stones gerði dramatískt jöfnunarmark gegn Arsenal
Haaland skoraði sitt tíunda mark á úrvalsdeildartímabilinu - eftir fimm umferðir!
Haaland skoraði sitt tíunda mark á úrvalsdeildartímabilinu - eftir fimm umferðir!
Mynd: EPA
Calafiori jafnaði með glæsilegu skoti utan teigs.
Calafiori jafnaði með glæsilegu skoti utan teigs.
Mynd: EPA
Trossard var ósáttur með seinna gula spjaldið.
Trossard var ósáttur með seinna gula spjaldið.
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Man City 2 - 2 Arsenal
1-0 Erling Haaland ('9)
1-1 Riccardo Calafiori ('22)
1-2 Gabriel ('45+1)
2-2 John Stones ('98)
Rautt spjald: Leandro Trossard, Arsenal ('45+8)

Manchester City og Arsenal áttust við í risaslag í lokaleik fimmtu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.

Leikurinn fór fjörlega af stað þar sem norska markavélin Erling Braut Haaland slapp í gegn eftir að brasilíski miðvörðurinn Gabriel lét draga sig úr stöðu.

Haaland stakk miðvarðapar Arsenal af áður en hann kláraði með marki og virtist góð byrjun Man City vera fullkomin. City var sterkari aðilinn en Arsenal refsaði Englandsmeisturunum um leið og þeir sofnuðu á verðinum með frábæru marki frá ítalska varnarmanninum Riccardo Calafiori.

Calafiori skoraði með frábæru skoti utan vítateigs og kvörtuðu leikmenn Man City sáran í Michael Oliver dómara. Þeir voru ósáttir með dómarann því að það var hann sjálfur sem dró Kyle Walker úr stöðu sinni í hægri bakverði til að ræða við hann eftir brot á miðjum velli. Arsenal tók aukaspyrnuna fljótt, áður en Walker gat komið sér aftur til baka, og var að lokum refsað.

Leikurinn var nokkuð jafn eftir jöfnunarmark Calafiori en Arsenal er hættulegasta lið deildarinnar í hornspyrnum og skoraði Gabriel með skalla eftir eina slíka í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Fimm mínútum var bætt við fyrri hálfleikinn en þegar komið var framyfir hann gerðist Leandro Trossard sekur um brot á miðjum velli. Oliver dæmdi aukaspyrnu og sparkaði Trossard boltanum í burtu til að næla sér í sitt seinna gula spjald. Belginn knái var því rekinn af velli og þurftu gestirnir frá London að spila seinni hálfleikinn einum leikmanni færri.

Það var aðeins eitt lið á vellinum í síðari hálfleik þar sem Arsenal lá í vörn á meðan Englandsmeistararnir gerðu sitt allra besta til að setja boltann í netið.

Ætlunarverk þeirra tókst þó ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, en varnarleikur Arsenal var til fyrirmyndar og þegar City menn komust í gegn var hinn feykiöflugi David Raya tilbúinn til að verja.

Þegar allt virtist stefna í afar dýrmætan sigur Arsenal tókst heimamönnum loksins að skora jöfnunarmark. Það gerði John Stones eftir hornspyrnu á 98. mínútu leiksins, með einni af síðustu snertingum leiksins.

Lokatölur urðu því 2-2 og heldur Man City í toppsæti deildarinnar, þar sem liðið er með 13 stig eftir 5 umferðir.

Arsenal er í fjórða sæti, með 11 stig.

Til gamans má geta að Arsenal hefur ekki tekist að sigra í keppnisleik á Etihad síðan í janúar 2015.

Mikel Arteta virtist ósáttur með uppbótartímana í leiknum, þar sem Trossard fékk fyrst rautt spjald eftir að uppbótartími fyrri hálfleiks var liðinn og svo skoraði John Stones jöfnunarmarkið eftir að uppbótartími venjulegs leiktíma var liðinn.
Athugasemdir
banner
banner