Davies fer líklega til Real Madrid - Liverpool ræðir við Díaz - Varnarmaður Arsenal til Ítalíu?
   sun 22. september 2024 17:26
Ívan Guðjón Baldursson
AGF mistókst að sigra Lyngby
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Orlando City
Það var mikið af Íslendingum sem tóku þátt í leikjum dagsins víðsvegar um Evrópu og var nokkrum leikjum að ljúka rétt í þessu, þar sem Lyngby og AGF skildu jöfn í Íslendingaslag.

Sævar Atli Magnússon var í byrjunarliði Lyngby á meðan Mikael Anderson lék allan leikinn í liði Århus, en hvorugu liði tókst að skora í markalausri viðureign.

Gestirnir frá Árósum voru sterkari aðilinn þó að heimamenn í liði Lyngby hafi einnig fengið sín færi. AGF er í öðru sæti dönsku deildarinnar með 18 stig eftir 9 umferðir á meðan Lyngby situr í næstneðsta sæti með 6 stig.

Í sænska boltanum fékk Andri Fannar Baldursson að spila síðustu 12 mínúturnar í markalausu jafntefli hjá Elfsborg á heimavelli gegn Hammarby, á meðan Eggert Aron Guðmundsson var ónotaður varamaður.

Liðin mættust í mikilvægum slag í Evrópubaráttunni en það ríkti þokkalegt jafnræði á vellinum. Hammarby er í þriðja sæti deildarinnar, sem veitir þátttökurétt í forkeppni Sambandsdeildarinnar á næsta ári, þremur stigum fyrir ofan Elfsborg og með einn leik til góða.

Daníel Tristan Guðjohnsen var þá ekki í hóp í stórsigri Malmö gegn Häcken. Malmö vann 4-0 og er svo gott sem búið að tryggja sér toppsæti sænsku deildarinnar, þar sem liðið er með ellefu stiga forystu á Djurgården - sem á þó einn leik til góða. Malmö á sex leiki eftir af deildartímabilinu.

Í næstefstu deild sænska boltans var Stefan Alexander Ljubicic í byrjunarliði Skovde AIK sem gerði 1-1 jafntefli við Trelleborg. Skovde vermir botnsæti deildarinnar og þarf nokkra sigra á lokakaflanum til að forðast fall.

Oskar Tor Sverrisson var þá ónotaður varamaður er Varberg tapaði heimaleik gegn Brage, en Varberg er aðeins einu stigi frá fallsæti í Superettan.

Svo fóru einnig leikir fram í Noregi, þar sem Stefán Ingi Sigurðarson var í byrjunarliði Sandefjord sem tapaði 3-0 á útivelli gegn Tromsö. Sandefjord er í fallsæti þegar átta umferðir eru eftir af norska deildartímabilinu, með 22 stig eftir 22 umferðir - einu stigi frá öruggu sæti þar sem Haugesund situr með 23 stig úr 23 leikjum.

Anton Logi Lúðvíksson var ónotaður varamaður í liði Haugesund sem steinlá á útivelli gegn Rosenborg, 4-0.

Hilmir Rafn Mikaelsson kom inn af bekknum í uppbótartíma í markalausu jafntefli hjá Kristiansund gegn Odd og er Kristiansund fjórum stigum frá fallsæti eftir jafnteflið.

Í nótt fóru einnig fram leikir þar sem Íslendingar komu við sögu. Nökkvi Þeyr Þórisson spilaði fyrstu 79 mínúturnar í sigri St. Louis á útivelli gegn botnliði San Jose Earthquakes. St. Louis er þar með komið með 31 stig úr 30 umferðum og á ekki möguleika á sæti í úrslitakeppni MLS deildarinnar.

Fyrr um nóttina var Dagur Dan Þórhallsson í byrjunarliði Orlando City sem tapaði 4-3 á útivelli gegn Columbus Crew. Þar mættust afar gæðamiklir fótboltamenn og skoraði Diego Rossi, fyrrum leikmaður Fenerbahce, eina markið í fyrri hálfleik.

Cucho Hernandez, fyrrum leikmaður Watford, kom inn af bekknum í hálfleik í liði Columbus og skoraði annað markanna er heimamenn komust í 3-0 forystu. Þá var þó komið af Luis Muriel, fyrrum framherja Atalanta, sem kom inn af bekknum og skoraði tvennu en tókst þó ekki að koma í veg fyrir tap.

Columbus Crew er í þriðja sæti austurhluta MLS deildarinnar, tveimur sætum og þrettán stigum fyrir ofan Orlando City sem virðist svo gott sem öruggt með sæti í úrslitakeppninni.

Að lokum var keppt í gríska boltanum, þar sem Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Panathinaikos, sem lagði Panserraikos að velli í efstu deild þar í landi. Panathinaikos er í fjórða sæti, með 8 stig eftir 5 fyrstu umferðirnar á nýju tímabili.

Lyngby 0 - 0 AGF

Elfsborg 0 - 0 Hammarby

Malmo 4 - 0 Hacken

Trelleborg 1 - 1 Skovde AIK

Varberg 0 - 1 Brage

Tromso 3 - 0 Sandefjord

Rosenborg 4 - 0 Haugesund

Kristiansund 0 - 0 Odd

San Jose 1 - 2 St. Louis

Columbus Crew 4 - 3 Orlando City

Panathinaikos 3 - 1 Panserraikos

Athugasemdir
banner
banner
banner