Steven Gerrard, fyrrum stjóri Aston Villa, sendi frá sér yfirlýsingu á Instagram í gær, aðeins sólarhring eftir að hafa fengið sparkið frá félaginu.
Gerrard tók við Villa í nóvember á síðasta ári eftir að hafa gert magnaða hluti með Rangers í Skotlandi.
Á þessu tímabili hefur gengið illa hjá Villa að finna taktinn og liðið aðeins unnið tvo leiki af fyrstu ellefu og situr það í 17. sæti deildarinnar með einungis 9 stig.
3-0 tapið gegn Fulham var kornið sem fyllti mælinn og var hann látinn fara strax eftir leik. Gerrard ferðaðist með liðsrútunni heim áður en hann færði leikmönnum fréttirnar. Englendingurinn fór svo á Instagram í gær og þakkaði fyrir tímann hjá félaginu.
„Ég vil þakka öllum sem tengjast Aston Villa fyrir stuðninginn sem ég fékk á tíma mínum þar. Ég vil persónulega þakka stjórninni, leikmönnunum og öllu starfsliðinu fyrir þeirra vinnusemi."
„Það sem ég vil segja við stuðningsmenn er að það er hörmulegt að þetta hafi ekki gengið upp, en ég stend í þakkarskuld við ykkur fyrir það hvernig þið tókuð á móti mér inn í félagið ykkar og hélduð áfram að styðja liðið áfram á erfiðum tímum."
„Aston Villa er félag með sérstaka sögu. Ég vildi koma með þessum eftirminnilegu afrek, en því miður þá gekk það ekki upp. Ég vil óska öllum hjá félaginu alls hins besta í framtíðinni. SG," skrifaði Gerrard á Instagram.
Athugasemdir