„Við komumst áfram sem var aðalmálið og spiluðum nokkuð vel í leiðinni. Mér fannst við vera með stjórn á leiknum, en vorum líka okkar versti óvinur á köflum. Þegar við vorum með stjórn þá hleyptum við þeim aftur inn í leikinn sem gerði þetta svolítið taugatrekkjandi í lokin, en við áttum samt sigurinn fyllilega skilið,“ sagði Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, eftir 3-1 sigurinn á AZ Alkmaar í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í kvöld.
Tottenham tapaði fyrri leiknum í Hollandi með einu marki gegn engu en var staðráðið í að snúa við taflinu í kvöld.
Liðið átti mjög góðan leik og var Heung-Min Son gríðarlega kraftmikill í sókninni en hann kom að tveimur mörkum.
„Við skoruðum frábært mark eftir pressu og byrjuðum seinni hálfleik mjög vel. Við hefðum átt að gera út um einvígið á fyrstu 15-20 mínútunum, en annars er ég samt ógeðslega ánægður fyrir hönd strákanna.“
Margir leikmenn eru að koma til baka hjá Tottenham og á leið í rétta átt með að finna sitt gamla form.
„Það er ástæðan fyrir því að þeir eru hér, þetta eru allt gæða leikmenn. Romero og Micky gera gæfumuninn og þú sást hvað Wilson er með mikla hæfileika, þó við höfum ekki fengið að sjá mikið af honum á þessu ári,“ sagði Postecoglou.
Athugasemdir