Manchester United og Tottenham komust bæði áfram í 8-liða úrslit Evrópudeildarinnar í kvöld.
Staðan var jöfn í einvígi United og Real Sociedad fyrir leik kvöldsins á Old Trafford og voru það gestirnir frá Spáni sem fengu draumabyrjun er Matthijs De Ligt braut af sér í teignum.
Mikel Oyarzabal, fyrirliði Sociedad, skoraði af punktinum en sú forysta varði ekki lengi því nokkrum mínútum síðar var brotið á Rasmus Höjlund hinum megin á vellinum og önnur vítaspyrna dæmd.
Það var einmitt fyrirliði United, Bruno Fernandes, sem tók ábyrgðina í liðinu og skoraði.
Danski framherjinn Höjlund gerði vel að sækja vítið en honum var algerlega fyrirmunað að skora í leiknum og í raun verið þannig síðustu mánuði.
Það sást vel þegar hann kom sér í fínustu færi og geigaði á þeim, en örvæntingin greinilega orðin mikil hjá Höjlund.
Snemma í síðari hálfleiknum bætti Fernandes við öðru marki úr vítaspyrnu. Brotið var á Patrick Dorgu og kom Fernandes heimamönnum í forystu.
Þrettán mínútum síðar var Jon Aramburu rekinn af velli í liði Sociedad fyrir brot á Dorgu. Aramburu var aftasti maður og rauða spjaldið á loft.
Undir lok leiks fullkomnaði Fernandes þrennuna eftir sendingu Alejandro Garnacho og gerði endanlega út um einvígið. United-menn voru þó ekki hættir því fjórða markið kom á lokamínútunum eftir skemmtilega takta frá Höjlund og síðan sendinguna á Diogo Dalot sem skoraði.
Orri Steinn Óskarsson, nýr fyrirliði íslenska landsliðsins, kom inn á hjá Sociedad en tókst ekki að koma sér á blað.
Öruggur 4-1 sigur og Man Utd samanlagt áfram 5-2. United mætir Lyon í 8-liða úrslitum en Lyon pakkaði Steaua Bucharest saman, 4-0 þar sem georgíski framherjinn Georges Mikautadze skoraði tvö og lagði upp tvö.
Tottenham komst yfir snemma leiks og átti Heung-Min Son stóran þátt í því. Hann fór í hápressu á varnarmann AZ sem átti hræðilega sendingu til baka. Dominic Solanke komst í boltann, lagði hann til hliðar á Wilson Odobert sem skoraði með afbragðs skoti efst í hægra hornið.
James Maddison gerði annað markið í upphafi síðari hálfleiks eftir stoðsendingu frá Son. Peer Koopmeiners tókst að minnka muninn og halda AZ í einvíginu en Odobert gerði út um vonir hollenska liðsins með öðru marki sínu tæpum tuttugu mínútum fyrir leikslok.
Tottenham áfram með samanlagðan 3-2 sigur. Tottenham mætir Eintracht Frankfurt í 8-liða úrslitum.
Leikur Rangers og Fenerbahce er framlengdur en tyrkneska liðið náði að vinna upp tveggja marka forskot í Skotlandi þökk sé mörkum frá Sebastian Szymanski. Rangers vann fyrri leikinn 3-1.
Tottenham 3 - 1 AZ (Samanlagt, 3-2)
1-0 Wilson Odobert ('26 )
2-0 James Maddison ('48 )
2-1 Peer Koopmeiners ('63 )
3-1 Wilson Odobert ('74 )
Rangers 0 - 2 Fenerbahce (Framlengt)
0-1 Sebastian Szymanski ('45 )
0-2 Sebastian Szymanski ('73 )
Lyon 4 - 0 Steaua (Samanlagt, 7-1)
1-0 Georges Mikautadze ('14 )
2-0 Ernest Nuamah ('37 )
3-0 Georges Mikautadze ('47 )
4-0 Ernest Nuamah ('88 )
Manchester Utd 4 - 1 Real Sociedad (Samanlagt, 5-2)
0-1 Mikel Oyarzabal ('10 , víti)
1-1 Bruno Fernandes ('16 , víti)
2-1 Bruno Fernandes ('50 , víti)
3-1 Bruno Fernandes ('87 )
4-1 Diogo Dalot ('90 )
Rautt spjald: Jon Aramburu, Real Sociedad ('63)
Athugasemdir