Thibaut Courtois, markvörður Real Madrid og Belgíu, er oftar en ekki ósáttur með umtalið sem hann fær í fjölmiðlum og þá er hann duglegur að láta í sér heyra.
Hann var ósáttur þegar hann lenti í sjöunda sætinu í kjörinu á Gullknettinum en liðsfélagi hans, Karim Benzema, vann verðlaunin.
„Ég sé að markverðir geta ekki unnið Gullknöttinn. Ég vann bæði deildina og Meistaradeildina. Liðið mitt vann mikilvæga leiki útaf markvörslunum mínum. Samt enda ég í sjöunda sæti, sem betur fer fundu þeir upp á þessum markvarðaverðlaunum," sagði Courtois eftir verðlaunaafhendinguna.
Fjölmiðilinn Marca fjallaði um ummæli hans sem hann lét falla á dögunum en þá var hann ósáttur við hversu lítið hrós hann fékk eftir að liðið vann Meistaradeildina. Hann var frábær í úrslitaleiknum gegn Liverpool í París.
„Þegar við unnum Meistaradeildina á síðustu leiktíð, þá var það ekki bara Rodrygo, Benzema, Vinicius og Valverde að þakka. Það var líka Courtois að þakka,” sagði Belginn.
„Þegar markmenn gera mistök, þá skrifa þeir það með stórum stöfum í fjölmiðlum. Þegar þeir gera síðan lítil mistök, þá eru þeir teknir af lífi og segja að það hafi kostað leikinn. Þeir gleyma því að sóknarmaðurinn hafi kannski klúðrað 5-6 góðum færum á undan því.”
Belginn hefur verið meiddur að undanförnu en hann er orðinn klár í slaginn hjá Real Madrid.