Enski miðjumaðurinn Dele Alli er ekki vinsæll meðal stuðningsmanna Besiktas í Tyrklandi og þá sérstaklega eftir frammistöðu hans í bikarnum á dögunum en hann neitar að gefast upp.
Alli, sem er á láni hjá Besiktas frá Everton, kom til félagsins í sumar og var fljótur að stimpla sig inn.
Hann skoraði í öðrum deildarleik sínum með félaginu en frammistaða hans undanfarið hefur ekki verið upp á marga fiska.
Alli var tekinn af velli á 29. mínútu er Besiktas var 2-0 undir gegn C-deildarliði Sanliurfaspor í bikarnum á miðvikudag en eftir að hann fór af velli skoraði Besiktas fjögur mörk og tryggði sig áfram.
Stuðningsmenn Besiktas eru ekki ánægðir með Alli og vilja hann burt en hann ætlar ekki að gefast upp svo auðveldlega.
„Þú bjargaðir lífi mínu og þess vegna mun ég alltaf elska þig,“ skrifaði Alli við mynd sem hann birti á Instagram en þar vísar hann að fótboltinn hafi bjargað lífi hans.
Alli hefur átt erfitt uppdráttar síðustu ári bæði hjá Tottenham og svo Everton. Hann þótti eitt sinn efnilegasti miðjumaður Englands en leiðin hefur verið niður á við eftir það.
Athugasemdir