Erik ten Hag, fyrrum stjóri Manchester United, segir það alls ekki öruggt að hann snúi aftur í þjálfun á næstunni, en þetta sagði hann í hlaðvarpsþættinum SEG Stories.
Ten Hag var rekinn frá United í byrjun tímabils, aðeins nokkrum mánuðum eftir að hafa framlengt samning sinn við félagið.
Hann stýrði United í rúm tvö ár og vann tvo titla en áður þjálfaði hann Ajax, Utrecht, Go Ahead Eagles og varalið Bayern München.
Síðustu mánuði hefur hann verið mikið í kringum fjölskyldu sína og verið þar bræðrum sínum og föður til halds og trausts.
Ekki er öruggt að hann snúi aftur í þjálfun en hann segir marga kosti í stöðunni.
„Það er svo margt annað sem ég gæti gert. Kannski í fótbolta, í nýrri stöðu sem stjóri. Það er möguleiki, en kannski fer ég í eitthvað allt annað.“
„Undanfarið hef ég verið að vinna með bræðrum mínum. Við eigum fyrirtæki eða í raun eiga þeir fyrirtæki saman, Við erum líka að reka fyrirtæki með föður okkar. Það er eitthvað sem ég myndi vilja gera og get núna veitt því meiri athygli, sem er mjög skemmtilegt,“ sagði Ten Hag.
Ten Hag-fjölskyldan er ein af ríkustu fjölskyldum Hollands. Faðir Erik stofnaði fasteignafyrirtæki árið 1967 og þá á fjölskyldan nokkur fjármálafyrirtæki, en bræðurnir Michel og Rico sjá alfarið um rekstur fyrirtækjanna.
Athugasemdir