
Lengjudeildarfélag Keflavíkur hefur tilkynnt samstarfssamning við knattspyrnufélagið Hafnir.
Ungir leikmenn Keflavíkur sem leika með 2. flokki munu því geta öðlast reynslu með að leika fyrir Hafnir í 4. deildinni.
Hafnir komust upp úr 5. deild í fyrra og verður spennandi að sjá hvernig þeim mun ganga í nýrri deild. Félagið hefur verið starfandi í fjögur ár.
„Við vonumst eftir að geta elft frekar knattspyrnuna í Reykjanesbæ með þessu samstarfi og að okkar efnilegu leikmenn öðlist góða reynslu í metnaðarfullu og skemmtilegu umhverfi," segir Ragnar Aron Ragnarsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Keflavíkur.
Bergsveinn Andri Halldórsson, formaður Hafna, var einnig mjög kátur með samninginn.
„Við hjá Höfnum erum spenntir fyrir þessu samstarfi við Keflavík og hlökkum til að fá til liðs við okkur unga og efnilega leikmenn. Markmið okkar er að skapa umhverfi fyrir unga knattspyrnumenn í bæjarfélaginu þar sem þeir taka sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta og koma til með að styrkja liðið. Við hjá Höfnum viljum styrkja fótboltamenninguna í Reykjanesbæ og teljum við að þetta samstarf sé rétt skref í þá átt."
Athugasemdir