Argentínski táningurinn Claudio Echeverri er lentur í Manchester þar sem hann mun bætast við aðalliðshópinn hjá Manchester City.
Englandsmeistararnir keyptu Echeverri fyrir rúmlega einu ári síðan en leyfðu þessum unga sóknartengiliði að vera áfram hjá River Plate í heimalandinu á lánssamningi í eitt ár.
Sá lánssamningur rann út í janúar en leikmaðurinn kemur til Man City fyrst núna vegna landsliðsverkefna með U20 landsliði Argentínu.
Echeverri, sem varð 19 ára í janúar, hefur verið algjör lykilmaður fyrir yngri landslið Argentínu. Hann á í heildina 19 mörk í 40 leikjum fyrir yngri landsliðin, auk þess að hafa komið að 12 mörkum í 48 keppnisleikjum með River Plate á síðustu leiktíð.
Echeverri mun berjast við Kevin De Bruyne, Bernardo Silva og James McAtee um byrjunarliðssæti hjá City. Hann getur einnig spilað á köntunum en samkeppnin þar er einnig gífurlega mikil.
Athugasemdir