City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   þri 25. febrúar 2025 22:13
Brynjar Ingi Erluson
Tvö mörk dugðu ekki til í Frakklandi
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frakkland 3 - 2 Ísland
1-0 Kadidiatou Diani ('24 )
2-0 Marie-Antoinette Katoto ('28 )
2-1 Karólína Lea Vilhjálmsdóttir ('36 )
3-1 Sandy Baltimore ('65 )
3-2 Ingibjörg Sigurðardóttir ('68 )
Lestu um leikinn

Íslenska kvennalandsliðið tapaði fyrir Frakklandi, 3-2, í öðrum leik liðanna í A-deild Þjóðadeildarinnar á Stade Marie-Marvingt í Le Mans í Frakklandi í kvöld.

Frakkarnir, sem eru með eitt sterkasta lið heims, voru auðvitað sterkari í byrjun leiks og náðu að spila boltanum ágætlega sín á milli en fengu engin stórhættuleg færi.

Íslenska liðið fékk algert dauðafæri eftir rúmar tíu mínútur. Sveindís Jane Jónsdóttir nýtti sér ógnarhraða sinn á hægri kantinum, fór illa með varnarmann Frakka áður en hún keyrði inn í teiginn. Hún fór alveg upp að endalínu áður en hún lagði hann út í teiginn og á Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur sem hitti boltann illa fyrir opnu marki og skotið framhjá.

Mark lá í loftinu og kom fyrsta markið á 23. mínútu. Cecilía Rán Rúnarsdóttir átti slaka sendingu frá marki sem Frakkar komust inn í, Glódís komst fyrir fyrsta skotið en síðan fékk Kadidiatou Diani boltann og skoraði með góðu skoti í stöng og inn.

Auðvelt og ódýrt mark sem Frakkar fengu, en samt sem áður verðskuldað eftir góðan kafla liðsins.

Frakkar tvöfölduðu forystuna eftir frábæra sókn. Liðið spilaði vel sín á milli fyrir utan teiginn. Boltinn barst til Sakinu Karchaoui sem gaf laglega hælsendingu á Marie-Antoinette Katoto sem skoraði með föstu skoti í vinstra hornið, algerlega óverjandi fyrir Cecilíu í markinu.

Íslenska liðið hafði heppnina örlítið með sér þegar 36 mínútur voru komnar á klukkuna. Ísland fékk aukaspyrnu sem Karólína Lea tók. Hún spyrnti boltanum í vegginn, boltinn breytti um stefnu og lak framhjá Pauline Peyraud-Magnin og í netið.

Þetta þarf ekki alltaf að vera fallegt en þetta gaf Íslandi góða möguleika á að koma til baka.

Staðan í hálfleik 2-1 fyrir Frökkum og klárt svigrúm til bætinga fyrir síðari hálfleikinn.

Frakkar fóru að ógna þegar um tíu mínútur voru liðnar. Diani átti skot í þverslá og fjórum mínútum síðar gerði Sandy Baltimore þriðja mark Frakka með frábæru skoti af vinstri vængnum. Lítið sem Cecilía gat gert í skotinu.

Ísland fékk hornspyrnu þremur mínútum síðar og tókst að minnka muninn. Leikmenn íslenska liðsins herjuðu á Peyraud-Magnin á teignum sem sló boltann út á Ingibjörgu Sigurðardóttur sem þurfti bara að pota boltanum í netið, sem hún gerði.

Frakkar mótmæltu markinu harðlega og vildu fá brot en fengu ekki og áfram hélt því leikurinn. Í endursýningunni sést Peyraud-Magnin ýta fyrst við Sveindísi og gátu Frakkar lítið vælt yfir þessu marki.

Á lokakafla leiksins reyndi Ísland eins og það gat til að troða inn jöfnunarmarki en það gekk lítið að sækja það. Frakkar fóru síðan að tefja á lokamínútunum og uppskáru að lokum 3-2 sigur.

Fyrsta tap Ísland í Þjóðadeildinni í ár og liðið áfram með eitt stig en Frakkar með fullt hús stiga.
Athugasemdir
banner
banner
banner