City vill Wirtz - Lookman orðaður við Newcastle og Man Utd - White gæti snúið aftur í landsliðið
   þri 25. febrúar 2025 11:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Hrafn: Þarf að svara þér í haust endanlega
Óskar tók við sem þjálfari og yfirmaður fótboltamála í ágúst í fyrra.
Óskar tók við sem þjálfari og yfirmaður fótboltamála í ágúst í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR vann Reykjavíkurmótið eftir úrslitaleik gegn Val.
KR vann Reykjavíkurmótið eftir úrslitaleik gegn Val.
Mynd: Mummi Lú
Guðmundur Andri Tryggvason er að koma til baka.
Guðmundur Andri Tryggvason er að koma til baka.
Mynd: KR
KR fékk Alexander Helga frá Breiðabliki.
KR fékk Alexander Helga frá Breiðabliki.
Mynd: KR
Það eru u.þ.b. sex vikur í að Besta deildin fari af stað. KR er það lið sem hefur úrslitalega átt hvað besta undirbúningstímabilið til þessa. Liðið er með níu stig eftir þrjá leiki í Lengjubikarnum, varð Reykjavíkurmeistari og komið í úrslitaleik Bose-mótsins.

Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara og yfirmann fótboltamála hjá KR, í gær og var farið yfir undirbúningstímabilið.

„Ég er mjög ánægður með stærðina á hópnum, mjög ánægður með hópinn sem slíkan, hvernig hann er að blandast, andann í hópnum og stemninguna. Ég er virkilega sáttur, er með hóp sem er tilbúinn að leggja mikið á sig," segir Óskar Hrafn.

KR hefur skorað mikið undir stjórn Óskars og ekki óalgengt að sjá yfir þrjú mörk skoruð hjá KR síðustu mánuðina. Hefur undirbúningstímabilið gengið eins og hann vonaðist eftir?

„Ég held það megi segja það, mér finnst við vera á ágætis stað, finnst við vera að taka framförum sem við erum að gera. Mér finnst við vera bæta okkur leik frá leik í ákveðnum atriðum. Stundum tökum við eitt skref til baka í einum leik frá öðru, en heilt yfir finnst mér vera að komast góður taktur og fínn bragur. Menn eru komnir með fínt sjálfstraust, farnir að vinna vel saman sem lið. Mér finnst við vera á mjög fínum stað."

„Við erum búnir að glíma við dálítið af meiðslum en það er bara fylgifiskur þess að vera með nýtt lið á öðruvísi undirbúningstímabili en margir eru vanir. Ég er bara mjög hamingjusamur með þetta."


Talandi um meiðsli, hvernig er staðan á Guðmundi Andra Tryggvasyni?

„Hann er byrjaður að æfa, hann á góða daga og svo á hann slæma daga. Við þurfum að byggja hann upp í rólegheitunum og gefa honum þann tíma sem þarf til að ná vopnum sínum að fullu. Hann er kominn út á völl sem er frábært."

„Það eru engin alvarleg meiðsli, en við erum með nokkrar smá tognanir og smá hnjask. Luke Rae verður eitthvað frá, Atli Hrafn verður eitthvað frá og Alexander Helgi. Aron Þórður er í smá hvíld. Ég held að öll önnur lið ganga í gegnum svoleiðis á svona undirbúningstímabili, við getum ekki leyft okkur að kvarta eitthvað sérstaklega yfir því eða notað það sem einhverja afsökun. Aðrir menn fá bara tækifærið til að stíga upp."


KR er búið í sinni æfingaferð, liðið fór nokkuð snemma út til Spánar miðað við önnur lið í Bestu deildinni. Heldur þú að það sé rétta leiðin að fara svona snemma út í æfingaferð?

„Þú ert að spyrja spurningar sem er erfitt að svara akkúrat á þessum tímapunkti. Ég þarf að svara þér í haust endanlega. Fyrir fram þá fannst manni eins og þetta væri full snemmt, en við tókum þann pól í hæðina að nota þetta sem lokahnikkinn á þunga og erfiða tímabilinu okkar. Við æfðum bara, spiluðum enga leiki, vorum búnir að spila sex leiki á rúmum þremur vikum þar á undan. Við æfðum bara og æfðum, æfðum mjög vel. Aðstæður voru frábærar og hópurinn blandaðist vel. Akkúrat núna líður mér eins og þetta hafi verið mjög góður tímapunktur. Á næsta ári förum við mögulega 2-3 vikur seinna, en akkúrat líður mér eins og þetta hafi verið góður tímapunktur, sérstaklega þar sem hópurinn er dálítið breyttur, margir nýir. Það var kannski betra að fara fyrr en seinna að ná svona ferð þar sem menn kynnast vel og geta búið til sterka liðsheild," segir Óskar Hrafn.
Athugasemdir
banner