Amorim vill að Quenda verði keyptur - West Ham hefur áhuga á Harwood-Bellis - Hár verðmiði á Branthwaite
   mán 24. febrúar 2025 19:29
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Formaður Vals: Getum orðið Íslandsmeistarar
Formaðurinn er brattur.
Formaðurinn er brattur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danska markavélin Patrick Pedersen.
Danska markavélin Patrick Pedersen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór er farinn frá Val.
Gylfi Þór er farinn frá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ögmundur glímir við meiðsli.
Ögmundur glímir við meiðsli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór er að flytja með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar.
Arnór er að flytja með fjölskyldu sinni til Svíþjóðar.
Mynd: Valur
Kristinn Freyr og Aron gætu færst framar á völlinn. Valsmenn eru í leit að sexu.
Kristinn Freyr og Aron gætu færst framar á völlinn. Valsmenn eru í leit að sexu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stærsta fréttaefni vetrarins í íslenska boltanum, salan á Gylfa til Víkings, fékk eðlilega mikla umfjöllun í síðustu viku. Valur seldi Gylfa eftir að hann og hans teymi lét í ljós að hann vildi halda annað.

Formaður fótboltadeildar Vals, Björn Steinar Jónsson, ritaði pistil til stuðningsmanna Vals þegar skiptin voru að ganga í gegn þar sem hann gagnrýndi m.a. Gylfa nokkuð harkalega.

Fótbolti.net ræddi við Björn Steinar í dag um síðustu viku og framhaldið.

Patrick Pedersen gleymst í umræðunni
„Eins og ég kom inn á í yfirlýsingu okkar þá er Valur stærri heldur en einhver einn leikmaður, hvort sem það er Gylfi Þór Sigurðsson eða einhver annar. Við ætlum bara að halda áfram að styrkja okkur. Við erum búnir að sækja fjóra leikmenn frá lokum síðasta tímabils, Markus Nakkim sem er að komast í gang og byrjar sinn fyrsta leik í dag, svo komu þeir Tómas Bent, Birkir Heimisson og Birkir Jakob Jónsson. Fyrstu þrír eru allir skref í áttina af því að ná öðruvísi jafnvægi varnarlega en var á síðasta tímabili. Við erum áfram að leitast eftir fleiri slíkum, en kannski leitumst við eftir sóknarþenkjandi leikmanni líka."

„Það hefur stundum gleymst í umræðunni að við erum með held ég besta framherja deildarinnar og besta leikmann deildarinnar síðustu 10-15 árin í Patrick Pedersen. Hann átti mjög gott tímabil í fyrra og lítur vel út núna, Jónatan átti frábært tímabil í fyrra. Það kann að vera, þó að ég velji nú ekki liðið, að leikmenn eins og Kristinn Freyr Sigurðsson og Aron Jóhannsson fari aðeins framar á völlinn við þessar breytingar, sérstaklega ef við styrkjum okkur aðeins aftar á vellinum."

„Við vorum búnir að vinna í því í vetur að koma liðinu í betra stand, í janúar og febrúar eru menn búnir að vera æfa tvisvar á dag, verið í ræktinni á morgnana, fengið næringarráðgjöf frá næringarþjálfara. Á síðasta tímabili fékk Valsliðið svolítið mikið af mörkum á sig á 70.-90. mínútu. Við ætlum okkur að koma inn í mótið í betra standi. Við erum með 22-23 leikmenn samningsbundna og þar á meðal eru margir af bestu leikmönnum deildarinnar."


Hafa fulla trú á því að Valur geti orðið Íslandsmeistari
Hópurinn í dag, getur hann barist um Íslandsmeistaratitilinn?

„Við höfum fulla trú á því, það eru líka ennþá tæpir tveir mánuðir í að félagaskiptaglugginn lokar og á meðan hann er opinn þá ætlum við að leita að leikmönnum sem geta styrkt liðið okkar. Við erum með mjög öfluga leikmenn og þ.a.l. þurfa þeir leikmenn að vera mjög góðir."

Gætu styrkt sig í öllum línum
Hvar á vellinum þurfið þið að styrkja ykkur?

„Við erum að horfa á ýmsar stöður á vellinum, erum að skoða einhverja varnarmenn, djúpa miðjumenn og sóknarmenn í ljósi síðustu leikmannaskipta hjá okkur. Við gætum verið tilbúnir í að sækja 2-3 leikmenn ef það gengur. Við erum samt ekkert að fara á eftir hverjum sem er, ekkert panikk. Við teljum okkur vera með mjög góðan leikmannahóp."

Í markmannsleit vegna meiðsla Ögmundar Kristinssonar
Það hefur heyrst síðustu vikur að Valsarar eru að skoða markmenn. Valsmenn hafa verið orðaðir við Ólaf Kristófer Helgason, Ásgeir Orra Magnússon og um helgina heyrðist að Valur væri að reyna við Sindra Kristin Ólafsson. Er hugsunin að fá inn markmann í samkeppni við Ögmund eða hvernig sjáið þið þetta?

„Við höfum verið að skoða markmannsmálin vegna þess að Ögmundur er búinn að vera meiddur í vetur og ekki spilað neina leiki. Ef Ögmundur kemst af stað þá væri fyrsti kostur að vera með það markmannsteymi sem við erum með núna, en í ljósi þess að hann er búinn að vera meiddur höfum við verið að skoða þau mál, en það er ekkert sem liggur í hendi þar."

„Ég get ekki tjáð mig um leikmenn sem eru samningsbundnir öðrum félögum, en við höfum verið að skoða þessa stöðu, skoðað ýmsa kosti,"
segir Björn Steinar aðspurður út í Sindra Kristin.

„Ætlum ekkert að dvelja við það"
Ef þú horfir til baka til síðustu viku, er einhver eftirsjá vegna einhvers sem var gert eða sagt varðandi félagaskipti Gylfa?

„Ég hef svo sem engu við að bæta annað en það sem fram kom í yfirlýsingu okkar um það mál. Þar þökkuðum við leikmanninum fyrir það sem hann gerði á þeim tíma sem hann var hjá okkur. Við ætlum ekkert að dvelja við það, hvorki gagnvart leikmanninum né félaginu. Það er ekkert óeðlilegt við það að leikmaður skipti um félag. Við horfum bara fram á veginn, Valur sem félag er miklu stærra en einhverjar persónur og leikendur."

Vill ekki tjá sig um 4. febrúar
Gylfi nefndi sjálfur dagsetninguna 4. febrúar, að hann hafi þá látið vita að hann hafi viljað fara frá Val. Getur þú eitthvað sagt hvað gerðist þann dag?

„Eins og ég segi, þá held ég að við ættum bara að láta staðar numið, held að í yfirlýsingu okkar sem ég skrifaði og í viðtali sem birt var í kjölfarið hafi allt komið fram sem við munum koma fram með. Ég ætla ekki að tjá mig neitt meira um það."

Viðtalið sem Björn Steinar nefnir er viðtalið sem varaformaður fótboltadeildar, Styrmir Þór Bragason, veitti Vísi í kjölfar félagaskiptanna.

Nýr yfirmaður fótboltamála, en óvíst hvenær
Að lokum, Arnór Smárason verður ekki áfram í sínu hlutverki sem yfirmaður fótboltamála. Eruð þið að skoða að fá annan aðila inn í það starf?

„Það er alveg ljóst að það mun standa til á einhverjum tímapunkti. Áður en Arnór kom þá var enginn starfsmaður í þessu hlutverki hjá Val. Við munum fara í að fá inn aðila í það starf. Við horfum til þess að þau verkefni sem snúa að því að gera liðið klárt fyrir tímabilið verði á höndum stjórnar og annarra starfsmanna, eins og það var áður. Eins og var tekið fram mun Arnór geta sinnt einhverjum af þeim verkefnum sem hann var kominn af stað með áfram og mun gera það," segir Björn Steinar.

Eins og formaðurinn kom inn á í viðtalinu á Valur leik í kvöld gegn Grindavík. Sá leikur hefst klukkan 19:00 og fer fram á N1 vellinum.
Athugasemdir
banner
banner
banner