Crystal Palace lagði Aston Villa að velli, 4-1, í 27. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Selhurst Park í kvöld, en á sama tíma unnu Brighton og Fulham 2-1 sigra.
Alls komu þrjú mörk í fyrri hálfleiknum hjá Palace og Villa en aðeins eitt var löglegt.
Ismaila Sarr gerði það fyrir Palace er hann hirti frákast úr teignum. Tvö mörk voru tekin af Villa í fyrri hálfleiknum, eitt af Jacob Ramsey og annað af Morgan Rogers.
Markið sem var tekið af Rogers undir lok hálfleiksins þótti heldur umdeilt en hann virtist í línu við varnarmenn Palace. Engu að síður tók VAR markið af Villa og staðan 1-0 í hálfleik.
Emi Martínez, markvörður Villa, var tekinn af velli í hálfleik og kom Robin Olsen inn. Argentínumaðurinn greinilega að glíma við meiðsli.
Villa-menn komu sterkt inn í síðari hálfleikinn. Rogers jafnaði metin á 52. mínútu. Ollie Watkins skallaði boltann inn fyrir á Rogers sem tók góðan snúning í teignum áður en hann lagði boltann í netið.
Jean-Philippe Mateta kom Palace aftur í forystu stuttu síðar eftir ágæta sókn. Boltinn kom inn á Eberechi Eze sem féll við, en Mateta tókst að hirða boltann og þrumaði boltanum í vinstra hornið.
Sarr gerði annað mark sitt og það með frekar einföldum hætti. Daniel Munoz kom með fyrirgjöfina frá hægri inn á Sarr sem tók boltann á lofti og setti hann í vinstra hornið.
Varamaðurinn Eddie Nketiah gerði endanlega út um leikinn í uppbótartíma með fjórða marki Palace með skoti af stuttu færi.
Flottur 4-1 sigur hjá Palace sem er komið í 12. sæti með 36 stig en Villa í 10. sæti með 42 stig.
Fulham vann 2-1 sigur á Wolves. Ryan Sessegnon skoraði eftir 59 sekúndur. Hann slapp inn fyrir vinstra megin og kom boltanum í fjærhornið, en Joao Gomes jafnaði fyrir heimamenn á 19, mínútu.
Sigurmarkið gerði Rodrigo Muniz strax í upphafi síðari hálfleiks og þar við sat.
Fulham í 9. sæti með 42 stig en Úlfarnir í 17. sæti með 22 stig.
Brighton hafði þá betur gegn Bournemouth, 2-1. Joao Pedro skoraði úr vítaspyrnu á 12. mínútu en hollenski leikmaðurinn Justin Kluivert skoraði með stórgæsilegu skoti fyrir utan teig og efst í hægra hornið.
Fimmtán mínútum fyrir leikslok gerði Danny Welbeck sigurmarkið fyrir heimamenn. Fyrsta deildarmark hans síðan í október og reyndist það dýrmætt.
Brighton fer í 8. sætið með 43 stig, eins og Bournemouth, sem er í sætinu fyrir ofan með jafnmörg stig en betri markatölu.
Úrslit og markaskorarar:
Brighton 2 - 1 Bournemouth
1-0 Joao Pedro ('12 , víti)
1-1 Justin Kluivert ('61 )
2-1 Danny Welbeck ('75 )
Wolves 1 - 2 Fulham
0-1 Ryan Sessegnon ('1 )
1-1 Joao Gomes ('18 )
1-2 Rodrigo Muniz ('47 )
Crystal Palace 4 - 1 Aston Villa
1-0 Ismaila Sarr ('29 )
1-1 Morgan Rogers ('52 )
2-1 Jean-Philippe Mateta ('59 )
3-1 Ismaila Sarr ('71 )
4-1 Edward Nketiah ('90 )
Athugasemdir