Það kom nokkuð á óvart í byrjun mánaðar þegar Kristófer Orri Pétursson var tilkynntur sem nýr leikmaður KR. Kristófer Orri er fæddur árið 1998 og hafði leikið allan sinn feril hjá Gróttu.
Tímabilin 2018 og 2019 lék hann undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá Gróttu en Óskar er í dag þjálfari og yfirmaður fótboltamála hjá KR.
Tímabilin 2018 og 2019 lék hann undir stjórn Óskars Hrafns Þorvaldssonar hjá Gróttu en Óskar er í dag þjálfari og yfirmaður fótboltamála hjá KR.
„Við mátum það þannig að Jakob Gunnar þyrfti að spila og fyrst að hann fór í Þrótt þá vorum við heldur fámennir í framherjastöðunni, áttum fáa klassíska sentera, þó að Kristófer Orri sé kannski ekki týpísk nía. Ég þekki hann frá því að ég var með hann í Gróttu, hann er frábær fótboltamaður, þekkir leikstílinn minn, ég þekki hann, hann er sterkur í klefa og akkúrat á þessum tímapunkti þá mat ég það þannig að leikmaður eins og hann myndi smellpassa inn í þetta," segir Óskar.
„Eins og með Atla (Sigurjónsson) þá byrjar Kristófer Orri kannski í smá brekku, ekki búinn að æfa eins og liðið. En hann hefur komið flottur inn og ég gæti best trúað því að hann ætti eftir að koma einhverjum á óvart í sumar."
Kristófer Orri kom sér á blað með KR í gær þegar hann skoraði gegn Selfossi í Lengjubikarnum. Hann er annar leikmaðurinn sem Óskar sækir frá Gróttu sem féll úr Lengjudeildinni í fyrra.
„Það er hættulegt að horfa á hvernig liðunum sem menn eru að koma úr gengur, fyrir okkur snýst þetta að stærstum hluta um að finna leikmenn sem passa inn í kerfið. Það skiptir í raun engu máli í hvaða deild þeirri voru að spila eða hvaðan þeir koma, hvað þeir heita eða hvaða feril þeir eru með. Ef menn passa inn í það sem við erum að reyna gera hérna þá munu þeir nýtast okkur vel, en myndu kannski ekki nýtast öðrum liðum sem eru að gera aðra hluti," segir Óskar.
Ekki að leita að neinum sem stelur fyrirsögnum
Eiður Gauti Sæbjörnsson og Kristófer Orri eru þá framherjarnir tveir í leikmannahópi KR. Aðrir leikmenn geta vissulega leyst þá stöðu eins og t.d. Aron Sigurðarson, Guðmundur Andri Tryggvason og jafnvel Stefán Árni Geirsson. Er Óskar sáttur með framherjamálin eða er hann að leita að einni alvöru níu í hópinn?
„Ég met það svo að ég sé með alvöru níu í Eiði Gauta. Við erum svo með marga aðra sem geta leyst þessa stöðu. Ég er ekki kerfisbundið að leita að einhverjum manni sem a að fara beint inn í byrjunarliðið, einhverju stóru nafni, alls ekki. Við erum auðvitað alltaf að leitast leiða til að styrkja þetta lið, en það er þá kannski reynt meira að horfa til framtíðar og finna rétta prófílinn sem getur vaxið hjá okkur. En við erum ekki að leita að einhverjum sem stelur fyrirsögnum þegar hann kemur í KR," segir Óskar.
Nánar var rætt við Óskar og verður sá hluti viðtalsins birtur á morgun.
Athugasemdir