Færeyski landsliðsmaðurinn Jóan Símun Edmundsson er genginn aftur í raðir KA aðeins rúmu ári eftir að hafa yfirgefið félagið en þetta kemur fram í tilkynningu KA í dag.
Jóan Símun er 33 ára gamall sem getur spilað bæði sem framherji og miðjumaður en hann er talinn einn allra besti leikmaður í sögu Færeyja.
Hann lék með KA sumarið 2023 og var þeim gríðarlega mikilvægur í forkeppni Sambandsdeildarinnar er liðið komast alla leið í þriðju umferð. Hann lék alls 15 leiki og skoraði þrjú mörk í öllum keppnum en hélt síðan til Norður-Makedóníu í febrúar á síðasta ári.
Færeyingurinn yfirgaf KF Shkupi á dögunum og hefur nú samið um að leika með KA á komandi tímabili en þetta er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir KA sem mun spila í Evrópukeppni í sumar.
Jóan á glæstan feril að baki en spilaði með Newcastle, Viking, Fredericia, Vejle, OB, Arminia Bielefeld og Beveren, svo einhver félög séu nefnd.
Hann á að baki 94 A-landsleiki og 8 mörk fyrir Færeyjar.
Athugasemdir