Íslenski landsliðsmaðurinn Alfons Sampsted er að ganga í raðir Twente í Hollandi en þetta kemur fram í hollenska miðlinum Voetbal International.
Blikinn var að klára þriðja tímabil sitt með norska félaginu Bodö/Glimt og náði þar framúrskarandi árangri.
Frá því hann kom til félagsins árið 2020 hefur hann unnið norsku deildina tvisvar og verið með bestu leikmönnum liðsins.
Samningur Alfons við Bodö/Glimt gildir til áramóta en hann ákvað að framlengja ekki samning sinn.
Voetbal greinir nú frá því að Twente sé búið að ná samkomulagi við Alfons og nú er hann á leið í læknisskoðun áður en hann skrifar undir langtímasamning.
Twente er í 5. sæti hollensku deildarinnar með 27 stig, sex stigum á eftir toppliði Feyenoord.
Alfons á að baki 14 landsleiki fyrir A-landslið Íslands.
Athugasemdir