Arsenal ætlar að kaupa leikmann í janúarglugganum en þetta sagði Mikel Arteta, stjóri félagsins, á blaðamannafundi fyrir leik liðsins við West Ham.
Gabriel Jesus, framherji Arsenal, verður frá næstu mánuði vegna meiðsla sem hann varð fyrir á heimsmeistaramótinu og því þörf á að styrkja hópinn.
Jesus hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Arsenal sem er í efsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar. Félagið þarf og ætlar sér að styrkja hópinn í janúar.
„Við ætlum að vera virkir og það þýðir að við erum að leitast eftir því að styrkja liðið. Þessi hópur er ekki enn farinn að glíma við það lúxusvandamál að þurfa ekki að stækka sig í hverjum glugga, en það verður að vera rétti leikmaðurinn.“
„Við vitum hvar við erum staddir þegar það kemur að hópnum og stærð hans. Við munum fara mjög varlega í því sem við viljum gera í glugganum, sagði Arteta.
Jesus, Reiss Nelson og Emile Smith Rowe eru allir frá vegna meiðsla og þá er William Saliba enn í fríi eftir að hafa tekið þátt á HM með Frökkum.
„Það er erfitt að setja tímaramma á endurkomu Gabi en þekkjandi hann þá kýs ég að koma ekki með dagsetningu. Reiss verður frá í einhvern tíma en það er stutt í Emile. Hann fékk smá bakslag en það er stutt í hann,“ sagði Arteta enn fremur.
Athugasemdir