Franski miðjumaðurinn Blaise Matudi hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna eftir átján feril í atvinnumennsku. Matuidi var með bestu mönnum franska landsliðsins sem vann HM fyrir fjórum árum.
Þessi 35 ára gamli leikmaður hóf feril sinn hjá Troyes í Frakklandi áður en hann gekk í raðir St. Etienne þremur árum síðar.
Frammistaða hans með St. Etienne vakti mikla athygli og svo mikla að Paris Saint-Germain festi kaup á honum árið 2011.
Hjá PSG skapaði hann sér stórt nafn og komst tvisvar í lið ársins og þá var hann valinn leikmaður ársins í Frakklandi árið 2015.
Matuidi hélt til Juventus árið 2017 fyrir 20 milljónir evra. Hann varð ítalskur meistari öll árin á Ítalíu áður en hann rifti samningi sínum við félagið og hélt til Bandaríkjanna í sólina.
Hann samdi við Inter Miami til tveggja ára en tilkynnti í dag að skórnir væru komnir upp í hillu.
Besta frammistaða Matuidi fyrr og síðar var með landsliði Frakka en hann var einn mikilvægasti leikmaður liðsins er það vann heimsmeistaratitilinn í Rússlandi fyrir fjórum árum. Hlutverk hans á miðjunni var ómetanlegt.
Matuidi spilaði 87 landsleiki og skoraði 9 mörk.
Athugasemdir